Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:15:45 (2050)

2000-11-21 19:15:45# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:15]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að vissulega er það áhyggjuefni hve viðskiptahallinn er orðinn geigvænlegur á Íslandi á síðasta ári, þessu ári og fyrirsjáanlegt að framhald verði þar á. Ég tek undir það með hv. þm.

Varðandi auðhringamyndun í landinu og samþjöppun, sem ég vék að, t.d. á matvörumarkaði þá er það aldeilis ekki ótengt þeirri þróun sem við erum að ræða vegna þess að við erum nú að verða vitni að aukinni misskiptingu í íslensku þjóðfélagi. Eignir eru að safnast á fárra manna hendur og ég held að það sé vissulega hluti af þeirri peningahyggju sem hér hefur verið að ryðja sér til rúms og hefur birst okkur t.d. í því lagafrv. sem lögfest var árið 1996.

Hv. þm. Pétri H. Blöndal verður tíðrætt um hinn skynsama skattgreiðanda, þann sem leitar alltaf eftir öllum smugum til að komast hjá því að greiða skatta hvort sem það er hér á landi eða í útlöndum. Það væri fróðlegt að heyra hvort honum finnst ekki hægt að gera neinar siðferðilegar kröfur til stóreignafólks sem reynir að koma sér hjá því að greiða eðlilega til samfélagsins. Finnst honum virkilega að hin gráðuga Glistrup-manngerð eigi að ráða hér för eins og mér virðist mega að skilja á hans máli?