Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:19:52 (2052)

2000-11-21 19:19:52# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:19]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil segja örfá orð um þetta frv. fjmrh. sem hér liggur fyrir. Það sem mest hefur verið rætt og þetta frv. inniber eru þau ákvæði sem lúta að frestun á greiðslum söluhagnaðar af sölu hlutabréfa. Það er kannski synd vegna þess að í þessu frv. er hreyft ýmsum réttarbótum sem hv. nefnd á eftir að fjalla um og á væntanlega eftir að koma til umfjöllunar frekar við 2. umr. málsins. Herra forseti. Ég vil nefna t.d. það sem 15. gr. fjallar um, þar sem gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri geti bæði af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni skattaðila breytt ákvörðun skattstjóra hafi yfirskattanefnd eða dómstólar með úrskurði eða dómi kveðið upp úr með það að skattframkvæmd standist ekki lög. Ríkisskattstjóra er þá heimilt að leggja fyrir skattstjóra að annast slíkar leiðréttingar í samræmi við verklagsreglur.

Ég vil líka nefna, herra forseti, það sem er í 16. gr. frv. um það að skattstjóri geti tekið afstöðu til umsóknar skattaðila um lækkun álagðra skatta vegna tvísköttunar. Framkvæmdin hefur verið sú að erindi af þessu tagi hafa verið afgreidd af ríkisskattstjóra eftir álagningu. Sömuleiðis er hér talað um breytingar á álagstíma og skilafresti sem helgast af breyttu umhverfi að ýmsu leyti og er auðvitað spor í framfaraátt miðað við það umhverfi sem við búum við og miðað við þá tækni sem menn eru farnir að nýta sér. Allt eru þetta atriði sem hvert fyrir sig hefði getað verið tilefni umfjöllunar. En ég ætla eins og aðrir að fjalla fyrst og fremst um það sem hefur orðið mál málanna út úr þessu frv., þ.e. þau ákvæði sem komu inn í skattalögin árið 1996 varðandi einstaklinga og heimild þeirra til frestunar á skattgreiðslum af söluhagnaði ef þeir fjárfestu í hlutabréfum.

Það er alveg ljóst að framkvæmd þessa ákvæðis hefur verið slík að það hefur mjög orkað tvímælis og það er auðvitað þess vegna sem hæstv. ráðherra er nú kominn með þessa breytingu. Það hefur komið fram bæði í frv. eða greinargerð þess, og eins í því sem hann hefur farið yfir varðandi þetta mál bæði fyrr og nú, að framkvæmdin varð að ýmsu leyti á annan máta en menn reiknuðu með þegar þetta var samþykkt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gat þess í ræðu sinni í dag að vissulega hefði verið bent á það þegar málið var til umfjöllunar að með þessu gætu menn frestað skattgreiðslu út í hið óendanlega, en eigi að síður varð það niðurstaða meiri hlutans að þetta stæði svona. Kannski óraði engan fyrir því að framkvæmdin yrði nákvæmlega sú sem hún hefur orðið, þ.e. að breytingarnar á umhverfinu yrðu svo stórstígar sem raun ber vitni og að menn mundu horfa á allar þessar miklu fjárfestingar erlendis sem tölurnar segja okkur að hafi orðið á þessu tímabili.

Herra forseti. Það vekur athygli að hæstv. ráðherra nefnir í sínu frv. ekkert þá breytingu sem verður árið 1998 þar sem sama regla er sett fyrir lögaðila og áður hafði verið sett fyrir einstaklinga. Það má segja, herra forseti, að mönnum hafi þótt eðlilegt að lögaðilar fengju á sig sem sömu reglu og einstaklingar og með sömu rökum má þá segja að það sé eðlilegt sem fram kemur í frv. okkar í Samfylkingunni að réttur beggja aðila fylgist þá að aftur út úr lögunum, þ.e. þessi réttur til frestunar.

En það hefur verið bent á annað atriði sem kom inn í lagabreytingunni 1998, þ.e. 20% skattlagning söluhagnaðar erlendra aðila af hlutabréfum í íslenskum félögum. Þetta atriði hefur verið nefnt sem eitt af því sem hugsanlega kæmi í veg fyrir að íslenskir eigendur erlendra félaga fjárfestu til baka heim. Ugglaust mun nefndin fara yfir þetta um leið og hún skoðar ákvæði þessa frv.

Það hefur komið fram um þessa breytingu að þetta ákvæði sé óvíða að finna í löggjöf nágrannalanda okkar og það sé því fallið til þess að stuðla að því að fjármagn í eignarhaldsfélögum leiti ekki heim. Það hefur jafnframt komið fram að erfitt sé að framfylgja þessu lagaákvæði og að eftirlit með framkvæmd þess hafi ekkert verið af hálfu skattyfirvalda enn sem komið er, enda mun það ekki hafa skilað krónu í ríkissjóð. Herra forseti. Kannski erum við hér með dæmi um það hvað gerist ef skattprósenta og þar með umhverfi þeirra sem starfa á þessum markaði er svona ólíkt.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir að skattgreiðendur og fólk yfirleitt er skynsamt. Ef það á annað borð leggst yfir hlutina eða hefur tíma til að velta þeim fyrir sér, þekkingu eða þann aðgang að upplýsingum sem það þarf að hafa, þá velur það auðvitað þær leiðir sem eru því einfaldastar. Ég sakna þess hins vegar alltaf í máli hv. þingmanns, þó það sé kannski ekki beint dagskrárefni hér, að hann virðist ekki viðurkenna það að félagsleg hugsun bærist með nokkrum manni. En það er auðvitað efni í aðra umræðu okkar í millum.

Herra forseti. Ég fagna því að fulltrúi Framsfl. skuli vera viðstaddur þessa umræðu og vera á mælendaskrá vegna þess að það er mjög mikilvægt að kostur gefist á því að fulltrúi Framsfl. reifi þann fyrirvara sem þingflokkur Framsfl. setur við frv. fjmrh., eða þetta ákvæði um afnám frestunarinnar og lækkun þá af tekjuskattsprósentu þess sem fer umfram 3,2 millj. hjá einstaklingum og 6,4 hjá hjónum, og geri þinginu grein fyrir því hvort þetta sé þá ekki eiginlegt stjfrv. vegna þess að það er á því að skilja sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur látið eftir sér hafa í blaðaviðtali að hann vilji gjarnan halda öllu opnu gagnvart þessari grein og afstöðu til þess máls sem fjmrh. setur á dagskrá með þessum hætti. Hann segir í viðtali við Morgunblaðið að það þurfi að skoða hvort ekki sé nægjanlegt að afnema frestunarmöguleikann eða hvort önnur viðbrögð komi til greina. Það væri áhugavert líka að fá að heyra hvaða önnur viðbrögð Framsfl. getur hugsað sér við því ástandi sem skapast hefur vegna þessa ákvæðis sem er í lögunum frá 1996 því ég geri ráð fyrir því að Framsfl. vilji breyta þessu ástandi á einhvern hátt þó hann sé ekki sáttur kannski nákvæmlega við þá leið sem ráðherrann vill fara í þessum efnum.

Mér finnst líka áhugavert að vita hvort þingflokkur Framsfl. telji ásættanlegt að breyta einungis því sem lýtur að einstaklingum en ekki lögaðilum vegna þess að á meðan lögaðilarnir hafa rétt til frestunar, og í rauninni óbreyttan rétt, þá er ekkert auðveldara en að einstaklingar myndi eignarhaldsfélag um eign sína í hlutbréfum og séu þar með komnir undir þak lögaðila og geti síðan gert nákvæmlega það sem þeim er heimilt og spurning þá til hvers verið er að breyta nema þá kannski til að ná af einhverjum fjármagnseigendum sem hafa minna umleikis þannig að það borgi sig þá ekki fyrir þá að stofna sérstakt félag um sína eign.

Mér finnst líka áhugavert að heyra hvað hæstv. fjmrh. segir um þetta. Ég vil vitna, herra forseti, í viðtal við hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., í Morgunblaðinu á laugardaginn. Í kjölfar þess að segjast ekki vera ýkja hrifinn af þessari breytingu segir hann, með leyfi forseta:

[19:30]

,,Það er síðan spurning hvaða aðrar breytingar geta komið til en þetta sem snýr að skattfrestun á söluhagnaði. Það er ýmislegt annað sem gæti lagað þetta fyrir atvinnulífið í heild og aukið samkeppnishæfni Íslands.

Þessi breyting þýðir að það verða einhverjir sem greiða þennan 10% skatt, en ef menn eru með einhverjar upphæðir reyna þeir örugglega að fjárfesta í gegnum eignarhaldsfélög hérlendis en þó líklega mest erlendis. Ef menn fjárfesta erlendis standa menn betur gagnvart eignarskatti því að eignarskatturinn er farinn að spila mjög mikið inn í ákvörðun manna um hvort þeir eru með fyrirtækin á Íslandi eða erlendis. Það þarf því að skoða samkeppnishæfni skattkerfisins í heild.``

Þetta segir hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. Og hann heldur áfram, herra forseti, og nú vitna ég beint, með leyfi forseta:

,,Fyrir þá sem eru með stórar upphæðir borgar sig að fara með þær í eignarhaldsfélög. Einstaklingar sem eru með stórar upphæðir í höndunum borga þennan 10% skatt einu sinni, en ef þeir ætla sér að fjárfesta aftur í atvinnulífinu munu þeir kjósa að gera það í gegnum eignarhaldsfélög. Skattfrestun söluhagnaðar verður áfram til staðar hjá fyrirtækjum þannig að þau geta flutt eignarhald á milli fyrirtækja.``

Herra forseti. Mér finnst að þetta gefi tilefni til þess að hæstv. ráðherra fari yfir það hér með okkur hvernig hann sér þetta fyrir sér ef einungis verður afnumin heimild einstaklinga til að fresta en lögaðilar halda þeirri heimild sem þeir hafa samkvæmt lögunum frá 1998.

Ég heyri að hv. þm. Pétur Blöndal er farinn að setja efh.- og viðskn. fyrir, hvað hún eigi að skoða og gera. Eins og ég vitnaði í áðan er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson búinn að gera það. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur sett efh.- og viðskn. fyrir og þá er ég að tala um efni sem ekki er beint getið í þessu frv. heldur atriði sem menn telja nauðsynlegt að skoðuð séu í því samhengi sem menn eru að fara yfir hlutina hér.

Ég vil þá einungis, herra forseti, í lokin rifja það upp sem ég sagði í gær að auðvitað er nauðsynlegt að menn skoði þessa hluti í ákveðnu samhengi. Ég er nokkuð viss um að menn munu sjá það og fyrir liggur að líta þarf til fleiri þátta en nákvæmlega þeirra sem eru í 17. gr. og lúta að frestun. Menn þurfa vissulega að horfa til þess hvernig þeir geta laðað fjármagn til Íslands. Menn hafa talað um samkeppnishæfni. Menn hafa talað um mikilvægi þess að erlendar fjárfestingar ykjust í íslensku atvinnulífi og auðvitað hlýtur það einnig að verða viðfangsefni nefndarinnar að skoða þá hluti.

Síðan finnst mér eðlilegt að þeirri áskorun verði sinnt sem hér hefur aftur og aftur verið beint til hæstv. ráðherra og nefndarinnar, að eignarskattar verði skoðaðir. Sá vilji okkar í Samfylkingunni hefur komið fram að menn skoði samræmdari skattlagningu á tekjur, að ekki sé mismunað jafnmikið hvað varðar skatta eftir því hvaðan tekjur eru runnar og að við værum þá á móti tilbúin til að skoða lækkun eða niðurfellingu á eignarskatti og eins á stimpilgjöldum sem menn hafa farið hér yfir að geti verið býsna óréttlát og tæpast hægt að kalla skatt þó að þau séu það áreiðanlega í skilningi OECD.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr starfi nefndarinnar. Væntanlega mun það birtast okkur hér einhvern tíma laust fyrir jól þegar lítill tími verður til að fjalla rækilega um þær niðurstöður. Þó skyldi maður aldrei örvænta fyrir fram.