Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:34:18 (2053)

2000-11-21 19:34:18# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:34]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í þessu máli sem til umræðu er og þau atriði úr frv. sem helst eru til umræðu, þ.e. ákvæði um að afnema frestun á skattlagningu á söluhagnaði af hlutabréfum og hlutfall skattsins, eru atriði sem hafa þarf til skoðunar þegar slíkt mál er vegið og metið. Mér sýnast það vera einkum fjögur atriði sem skipta verulegu máli. Í fyrsta lagi frestunin á söluhagnaðinum, í öðru lagi hlutfall skattsins sem lagt er á, í þriðja lagi samræming á milli skattlagningar á tekjur og eignir almennt og í fjórða lagi að menn þurfa að hafa í huga að við búum við tiltölulega opið fjármálakerfi og það leiðir óhjákvæmilega af sér samanburð við sambærilega löggjöf erlendis. Allt eru þetta atriði sem skipta verulegu máli þegar menn reyna að komast að niðurstöðu um hvað sé skynsamlegast að gera hér á landi.

Ég vil fyrst víkja að frestun á söluhagnaði eða þeirri tillögu í frv. að afnema hana. Á sínum tíma var sett í löggjöf ákvæði um að fresta söluhagnaði til þess að stuðla að því að peningar yrðu áfram í atvinnulífinu þannig að menn hefðu ávinning af því, bæði með því að geta frestað skattlagningu og líka með tiltölulega lægra skatthlutfalli. Þetta var því sett upp til þess að stuðla að því að menn tækju ekki peningana út úr greininni heldur geymdu þá í henni. Því að ekki eru svo mörg ár síðan að í íslensku atvinnulífi var fjárskortur og skortur á eigin fé var verulegt áhyggjuefni. Það var ekki mikið um peninga þannig að það var eðlilegt að ríkisvaldið eða löggjafinn beitti aðferðum sem þessum til þess að laða fjármagn inn í atvinnulífið.

Nú hafa aðstæður að mörgu leyti breyst. Það er til verulega mikið af fjármagni og þeir sem það eiga eru að leita að kostum til að fjárfesta í. Aðstæður hafa því að mörgu leyti snúist við. Menn eru frekar að leita að skuldurum en að fyrirtækin séu að leita að mönnum sem eiga peninga. Þess vegna er eðlilegt að menn íhugi hvort ekki sé rétt að breyta þessum ívilnandi reglum vegna þess að ekki sé lengur þörf á þeim. Ég held að það sé að mörgu leyti skynsamleg tillaga sem er hér í frv., þ.e. að afnema frestunarákvæði á söluhagnaði og styðjast þá við það sem almenna reglu að skattur sé gerður upp af hagnaði það ár sem hann fellur til, því að ekki er líklegt, þótt svo það væri gert, að eitthvað mundi draga úr því síðar meir að peningar leiti inn í atvinnulífið.

Hlutfall skattsins skiptir líka verulegu máli og menn beittu því og hafa beitt því til þess að stuðla að innstreymi fjár í atvinnulíf eða fyrirtæki. Og það hefur líka breyst af sömu ástæðu og ég nefndi áðan og því hefur dregið úr þýðingu eða nauðsyn þess að beita hlutfalli á skattprósentu til að draga peninga inn í atvinnurekstur.

Ég minni á að fyrir nokkrum árum var verulega tekist á hér um það grundvallaratriði að stíga það skref að hefja skattlagningu á tekjum af fjármagni, af fjármagnstekjum, sem voru fyrir þann tíma að verulegu leyti undanþegnar nokkrum sköttum. Svo langt var gengið í löggjöf að menn töldu mikið á sig leggjandi til að fá peninga inn í atvinnulíf að það voru engir skattar á verulegum hluta af fjármagnstekjum. Þetta var mikið deilumál á þinginu en niðurstaðan varð sú að taka upp skattlagninguna. En til að stíga skrefið varlega og ná samkomulagi um hlutina var ákveðið að hafa skatthlutfallið lágt og undanþágulítið. Reynslan af þessum 10% fjármagnstekjuskatti hefur verið góð að mínu viti. Mér sýnist að reynslan sé nákvæmlega eins og frumvarpshöfundar eða tillöguhöfundar á sínum tíma gerðu ráð fyrir. En eins og menn muna var mikil skýrsla samin um þetta og að henni stóðu fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandinu.

Ég held að ríkissjóður hafi haft meiri tekjur af þessu en áætlað var og ég held líka að það hafi skipt máli að þarna var dregið úr mun á skattlagningu á tekjum af fjármagni annars vegar og tekjum af launavinnu hins vegar þannig að verið var að færa hlutina nær og draga úr mismun sem áður hafði verið.

Reynslan varðandi söluhagnað á hlutabréfum hefur verið sú eins og fram kemur í frv. að menn hafa nýtt sér leiðir til þess að fresta söluhagnaði og koma sér jafnvel algjörlega undan því að greiða nokkurn skatt af söluhagnaðinum. Það er því eðlilegt að hæstv. fjmrh. leiti að leiðum til að breyta því ástandi sem skilar ríkissjóði náttúrlega ákaflega litlu. Það eru því að mínu viti alveg rök í því að leggja til breytingar í þá veru eins og er í frv. að afnema möguleikann á frestun á söluhagnaði en í staðinn að bjóða mönnum lægri prósentu því að líklegt er að það skili ríkissjóði meiru en núverandi ástand og að því leytinu til held ég að tillögurnar séu til bóta frá núverandi ástandi.

Á hinn bóginn, og það er gallinn við slíkar tillögur, að þegar um er að ræða mikinn söluhagnað einstaklinga þá hafa menn mjög miklar tekjur og þegar menn þurfa að borga mjög lítinn skatt af þeim, því mikill munur er á þeim skatti og skatti af almennum launatekjum, þá er um verulegt misræmi að ræða. Fyllsta ástæða er til að fara að með gát í breytingar í þeim efnum að ívilna mönnum umfram það sem nú er í skattlagningu á miklum hagnaði. Niðurstaða löggjafans á sínum tíma var sú að það sem kalla má kannski hóflegan hagnað var gerður upp með fjármagnstekjuskattsprósentunni, 3,2 millj. á einstakling og 6,4 millj. á hjón, en það sem umfram var skyldu menn greiða af eins og um skatt af launatekjum væri að ræða.

Ég held að þetta hafi verið ágæt niðurstaða á sínum tíma og ég er ekkert sérlega fús til að breyta þessu. En það verður auðvitað að líta á hlutina eins og þeir eru vegna þess m.a. að við erum í opnum fjármálamarkaði og því er það eðlilegt að menn leiti að leiðum til að breyta því ástandi sem er og er lýst ágætlega í frv.

Ég vil hins vegar líka undirstrika að löggjafinn verður alltaf að gæta að því að taka ekki um of undir það sjónarmið að óeðlilegt sé að menn borgi skatta og að breyta eigi lögum til þess að menn geti komist hjá því að borga skatta vegna þess að menn hafi verið útsjónarsamir í þeirri viðleitni sinni að finna leiðir til að lækka skattgreiðslu sína. Við hljótum alltaf að leggja töluverða áherslu á ábyrgð einstaklinga á samfélaginu og skyldu þeirra til að leggja sitt af mörkum í ríkiskerfið og borga sína skatta og skyldur og að það sé eðlileg krafa til þeirra að þeir geri það. Ég hef svolitlar áhyggjur af þessu af því að mér hefur fundist á síðustu árum vera dálítið uppi, sérstaklega í fjármálaheiminum, það sjónarmið að eðlilegt sé að leita allra leiða til að komast hjá því að borga skatta. Mér finnst að við eigum ekki að stuðla mikið að þeim hugsunarhætti heldur fremur að ýta undir hið gagnstæða, að menn eigi að leggja sitt af mörkum.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram, herra forseti. En ég vil segja líka um þetta mál að ég tek undir þau sjónarmið að það eigi og sé rétt að skoða skattlagningu á eignir. Í þeirri skýrslu sem samin var á sínum tíma og leiddi til löggjafar um fjármagnstekjuskatt kom fram að löggjöf hér á landi er töluvert frábrugðin því sem gerist erlendis varðandi skattlagningu á eignir. Í þessu alþjóðlega umhverfi er ákaflega erfitt að vera með mjög frábrugðnar reglur í þessum efnum í einu landi því að það leiðir til þess að ef þær eru óhagstæðar flæðir fjármagnið bara frá okkur. Ég held að skynsamlegt sé að skoða skattlagningu á eignir með það í huga að lækka hana og færa hana nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Það er líka að mörgu leyti eðlilegt að draga úr þeim mun sem er í dag á skattlagningu á eignir, t.d. innan eignasamsetningar eins og fasteigna annars vegar og hlutabréfaeignar eða verðbréfaeignar hins vegar. Það er ekkert endilega nauðsynlegt lengur að gera þann mikla mun sem löngum hefur verið í þessum efnum.

Ég held að ég hafi farið yfir helstu sjónarmið í þessum efnum, herra forseti, og við leggjum áherslu á að þessi mál verði skoðuð vandlega í nefnd. Það eru rök fyrir því að taka upp þetta mál eins og hæstv. fjmrh. hefur lagt til og við teljum rétt að skoða þau rök til hlítar. En við teljum líka rétt að halda fram því sjónarmiði að gæta að því að mönnum er rétt og skylt að leggja sitt af mörkum til samfélagsins með því að greiða skatta.