Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:12:28 (2062)

2000-11-21 20:12:28# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:12]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gleymir því grundvallaratriði að grundvöllurinn undir því að geta styrkt velferðarkerfið og almenningsþjónustuna í landinu er að hér sé öflugt atvinnulíf og fyrirtæki sem skapa þau verðmæti sem slíkt byggist á. Það liggur alveg fyrir að verðmætin í þjóðfélaginu verða ekki annars staðar til en einhver verður að skapa þau til þess að við getum leyft okkur ýmislegt sem okkur langar til að leyfa okkur á hinu félagslega sviði. (ÖJ: Það gerist ekki í verðbréfa...) Það er nú aldrei að vita, það er nú merkilegt nokk hvað gerist þar, hv. þm.

Hins vegar að því er varðar skattaskjól og þá starfsemi er það vissulega annað mál. Ég held því fram að það sé allt annað mál. Við erum ekki að búa til þjóðfélag á Íslandi sem sker sig úr að því leyti til heldur erum við að búa til samkeppnishæft umhverfi sem býður fyrirtækjum okkar eðlilega kosti í þessum efnum.