Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:30:33 (2066)

2000-11-21 20:30:33# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. er endurflutt frá síðasta þingi. Það var lagt fram á síðasta þingi og samkvæmt beiðni og góðu samkomulagi var það sent til umsagnar. Fjölmargar umsagnir bárust um þetta veigamikla mál. Síðan hefur málið verið endurskoðað og tekið tillit til ýmissa þeirra breytingahugmynda sem fram komu í umsögnum. Þó er það ekki í grundvallaratriðum en sumt var skýrt það sem misskilningi gat valdið og sumu var breytt. Til dæmis var 30. gr. frv. um ferðaþjónustu endursamin að hluta til og afmarkað betur hvað fælist í ákvæðinu en margar athugasemdir hnigu í þá átt að greinin væri mjög opin.

Í þriðja lagi var 2. mgr. 31. gr. felld brott og þar var tekið tillit til athugasemda um að það sé óþarfa forræðishyggja gagnvart sveitarfélögunum að kveða á um að börn skuli fremur njóta þjónustu stuðningsfjölskyldu en skammtímavistunar. Fallist er á að um þetta atriði verði félmn. að eiga val eftir þörfum og aðstæðum barna hverju sinni. Fram kom að 51. gr. um aðstoð við íslenska ríkisborgara sem staddir eru erlendis hafi verið misskilin og það var leitast við að gera hana skýrari. Gjaldtökuákvæði 53. gr. var endursamið að hluta í því skyni að afmarka gjaldtökuheimildir eins og unnt er. Að lokum var felld brott úr gildistökuákvæðinu, 55. gr., upptalning þeirra lagasetninga og lagabreytinga sem þurfa að vera fyrir gildistöku laganna og nægilegt er talið að sú upptalning komi fram í athugasemdum.

Eins og menn vita og muna sjálfsagt frá fyrri tíð eru tvær ástæður fyrir því að þetta frv. er flutt, annars vegar flutningur málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga sem er fyrirhugaður og hins vegar endurskoðun á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Frumvarpið var samið af nefnd sem ég skipaði í ágúst 1997 og í nefndinni voru Arnbjörg Sveinsdóttir alþm., Kristinn H. Gunnarsson alþm., Siv Friðleifsdóttir alþm., án tilnefningar, en samkvæmt tilnefningum voru skipuð Bjarni Kristjánsson, þáv. framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík, sem var tilnefndur af framkvæmdastjórum málefna fatlaðra, Gerður Steinþórsdóttir framhaldsskólakennari, tilnefnd af Landssamtökunum Þroskahjálp, Helgi Seljan framkvæmdastjóri, tilnefndur af Öryrkjabandalagi Íslands, Jón Björnsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Ólöf Thorarensen framkvæmdastjóri, tilnefnd af Samtökum félagsmálastjóra, og formaður nefndarinnar var Árni Gunnarsson sem þá var aðstoðarmaður minn. Starfsmenn nefndarinnar voru Ingibjörg Broddadóttir og Þorgerður Benediktsdóttir, deildarstjórar í félmrn.

Sú breyting varð á skipun nefndarinnar að Bjarni Kristjánsson óskaði lausnar frá starfi í nefndinni haustið 1998 en í stað hans tók sæti Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra á Austurlandi, og jafnframt varð sú breyting að vegna fjarveru Ingibjargar Broddadóttur haustið 1998 til vors 1999 var Guðrún Ögmundsdóttir, þáv. deildarstjóri í félmrn. og nú hv. þm., skipuð sem annar af tveimur starfsmönnum nefndarinnar.

Nefndinni var ætlað að semja frv. til nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, huga sérstaklega að réttindagæslu fatlaðra og semja frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Fljótlega kom nefndin sér saman um að hentugra væri að kalla fleiri til verks. Margrét Margeirsdóttir, deildarstjóri í félmrn., og Soffía Lárusdóttir, framkvæmdastjóri svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, og Stefán Hreiðarsson, yfirlæknir Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sömdu frv. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem er fylgifrv. þessa frv. og raunar fylgja því fleiri frumvörp. Því fylgir frv. um réttindagæslu fatlaðra, sem fyrir mistök er ekki komið á borð alþm., og síðan fylgir því líka frv. um vinnumál.

Á sínum tíma var ákveðið að færa málefni fatlaðra til sveitarfélaganna, þ.e. sem ekki væri á landsgrundvelli. Rökin fyrir því að þjónusta við fatlaða skuli verða viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis eru margþætt. Fyrst og fremst er þó um að ræða sjónarmiðin um nærþjónustu annars vegar og jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hins vegar.

Fatlaðir eru ekki einir um að þarfnast þjónustu til þess að fá notið eðlilegs lífs. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um hvernig þeim markmiðum skuli náð.

Heildarsamtök fatlaðra, Öryrkjabandalag Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp, hafa bæði stutt yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga. Landssamtökin Þroskahjálp höfðu forgöngu um að koma umræðunni af stað og gerðu samþykkt m.a. á landsþingi 4. apríl 1992 og fyrsta ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga um yfirtöku á málefnum fatlaðra var gerð á 15. landsþingi sambandsins haustið 1994 svo að þetta er orðinn töluverður meðgöngutími.

Fyrir utan samruna þessara laga eru helstu einkenni frv. að skyldur sveitarfélaganna eru skerptar. Segja má að í frv. felist að verulega sé skerpt á skyldum sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu. Tilgangurinn er sá að félagsþjónustan verði ótvírætt jafnvíg annarri velferðarþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þannig er sveitarfélögum skylt að veita þá þjónustu sem frv. tilgreinir þótt þau hafi sjálfsákvörðunarrétt um útfærslu þjónustunnar.

Þá vil ég geta þess að langveik börn fá samkvæmt frv. sömu þjónustu og fötluð börn. Ég legg mjög ríka áherslu á þetta atriði því að það er mjög mikilvægt. Verið er að veita langveikum börnum sama rétt og fötluðum börnum og sömu möguleika til aðstoðar. Langveik börn hafa með vissum hætti verið sett hjá en nú er ætlunin að bæta úr því, bæði með þessu og eins með öðrum ráðstöfunum sem snerta þau og ríkisstjórnin hefur mótað stefnu í málefnum langveikra barna sem verður kynnt af viðkomandi ráðherrum.

Verkefni félmrn. eru ítarlega greind í frv. og hverjar skyldur ríkisvaldsins eru við framkvæmd laga um félagsþjónustu. Í núgildandi lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna lagaákvæði um skyldur sveitarfélaga í leikskólamálum, einkum er varðar uppbyggingu leikskólans. Samhliða félagsþjónustulögunum samþykkti Alþingi á sínum tíma lög um leikskóla. Áhrif leikskólalaganna urðu þau að smám saman færðust málefni leikskólans undir skólaskrifstofur sveitarfélaganna og því er hann ekki lengur hluti af skipulegri félagsþjónustu. Af þessum ástæðum er lagt til að ákvæði laganna um skyldur sveitarstjórna til að annast byggingu og rekstur leikskóla og tryggja eftir föngum framboð á leikskólarými verði felld brott. Um það efni gilda lög um leikskóla.

Þess má geta að áformað er að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga taki tillit til langveikra barna í leikskólum með sama hætti og fatlaðra barna. Í frv. er gert ráð fyrir að hægt sé að bjóða út þjónustu og einstök rekstrarverkefni. Þó að félagssamtökum og einkaaðilum hafi enn sem komið er ekki verið falin mörg verkefni á ábyrgð sveitarfélaga þá er hugsanlegt að þróunin verði eitthvað í þá átt. Í frv. er skotið enn styrkari stoðum undir úrskurðarnefnd um félagsþjónustu með því að gera verkefni hennar rýmri og Framkvæmdasjóður fatlaðra verður lagður niður við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaga og þar með samruna málefna fatlaðra og félagsþjónustu sveitarfélaga. Einsýnt er að hlutverki Framkvæmdasjóðsins er lokið og að verkefni hans verða ein af verkefnum félagsþjónustu sveitarfélaga eins og aðrar skyldur sveitarfélaga á þeim vettvangi. Einnig má benda á að þær breyttu áherslur í frv. þessu sem fela í sér þjónustu sem tekur mið af einstaklingsþörfum og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hníga í sömu átt.

Í frv. er ekki gert ráð fyrir nýjum vistheimilum sem leið í húsnæðismálum fatlaðra.

Atvinnumálum fatlaðra er fyrirhugað að skipa undir Vinnumálastofnun og atvinnumál fatlaðra flokkast ekki undir félagsþjónustu í frv. Þó skal tekið fram að hæfing, iðja og þjálfun, sem nú eru felldar undir atvinnumál fatlaðra samkvæmt lög um um málefni fatlaðra, eru hér flokkaðar sem félagsþjónusta og teljast því ein grein hennar.

Síðan við ræddum þetta frv. í vor hefur verið að störfum svokölluð kostnaðarnefnd sem átti að meta þann kostnað sem sveitarfélögin yrðu fyrir ef frv. yrði að lögum. Í kostnaðarnefndinni áttu sæti Hallgrímur Guðmundsson stjórnsýslufræðingur, tilnefndur af fjmrn., Karl Björnsson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, og Sturlaugur Tómasson, deildarstjóri í félmrn. Með nefndinni störfuðu einnig Björn Arnar Magnússon og Hermann Sæmundsson, deildarstjórar í félmrn., og Sigurður Helgason stjórnsýsluráðgjafi. Þessi nefnd hefur lokið störfum og skilað skýrslu sinni til mín. Nefndarmenn voru sammála um niðurstöður nefndarinnar. Fulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga tók þó fram að hinu nýja frv. mundu fylgja óhjákvæmilega óvissuþættir sem ekki væri unnt að leggja beint fjárhagslegt mat á.

Ég vil beina því til hv. félmn., sem ég geri tillögu um að fái þetta mál til skoðunar, að hún fái fulltrúa frá kostnaðarnefnd til þess að fara yfir hina ítarlegu skýrslu sem nefndin skilaði og hún getur gert mjög glögga grein fyrir vinnu sinni sem ég tel að hafi verið mjög vönduð.

Kostnaðarmat í málaflokki fatlaðra er vandasamt af ýmsum ástæðum. Erfitt er að afmarka þann hóp sem á rétt á þjónustu og því óljóst hversu mörgum einstaklingum sveitarfélögunum verður ætlað að veita sérhæfða þjónustu. Þörf fatlaðra fyrir þjónustu er mjög breytileg og þar með einnig kostnaður vegna þjónustu við hvern þeirra. Kostnaðarmat nefndarinnar byggist fyrst og fremst á því að reikna út kostnað á grundvelli þarfar fatlaðra fyrir þjónustu óháð því hvers konar þjónustu þeir fá í dag. Þannig er að fullu tekið tillit til kostnaðar við að veita þeim einstaklingum sem nú eru á biðlistum þjónustu í samræmi við þarfir þeirra. Reikna má með að 0,5% af íbúum landsins þurfi á sérhæfðri þjónustu að halda, t.d. búsetu á sambýli, frekari liðveislu til sjálfstæðrar búsetu, skammtímavistun eða dagþjónustu vegna fötlunar sinnar. Það er í stuttu máli mat nefndarinnar að árlegur kostnaður vegna þjónustu við fatlaða og húsnæðismál þeirra, þ.e. rekstur húsnæðismála fyrir þennan hóp, verði tæplega 4,1 milljarður á ári. Þetta er hækkun um 565 millj. frá núverandi fjárveitingum til málaflokksins.

Auk þess eru önnur kostnaðaráhrif frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga m.a. vegna þjónustu við langveiku börnin metin á tæpar 300 millj. Samtals reiknar nefndin því með að útgjöld sveitarfélaga muni aukast um tæplega 4,4 milljarða kr. vegna þessara verkefna. Sú fjárhæð svarar til 1,16% af áætluðum álagningarstofni útsvars á árinu 2000. Það er sem sagt sú meðgjöf sem ríkið þarf að gefa með þessu frv. þegar sveitarfélögin taka við málaflokknum.

[20:45]

Þó að mat á heildarkostnaði feli í sér nokkra óvissu er skipting fjármunanna milli sveitarfélaganna mjög vandasamt viðfangsefni. Útgjaldaþörf sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða er mjög ólík, m.a. vegna þess að skipting þeirra milli sveitarfélaga getur verið tilviljunum háð. Búseta fatlaðra nú endurspeglar núverandi þjónustumunstur og smæð sveitarfélaga veldur því að hætt er við sveiflum í útgjöldum einstakra smærri sveitarfélaga.

Nefndin telur að best sé að skipta fjármunum á milli sveitarfélaga sem almennast, t.d. með því að hækka útsvarshlutfall sveitarfélaga. Ójöfn dreifing fatlaðra milli sveitarfélaga hefur hins vegar þau áhrif að útgjaldaþörf þeirra er mjög mismunandi og því er svigrúm til almennrar tekjutilfærslu með auknum hlut sveitarfélaganna takmarkað í staðgreiðslunni. Með almennri tekjutilfærslu er að hámarki unnt að skila til sveitarfélaga um 20% fjárhæðarinnar en a.m.k. 80% hennar þarf að renna í jöfnunarsjóð að mati nefndarinnar svo að unnt verði að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaganna.

Um tilfærslu tekna til sveitarfélaga leggur nefndin til að þrjár leiðir verði einkum skoðaðar. Sjóður og útsvarssvigrúm. Þessi leið gerir ráð fyrir að rúmir 3,4 milljarðar renni í jöfnunarsjóð. Auk þess fái sveitarfélög svigrúm til að hækka útsvarshlutfall sitt um allt að 0,26%. Fjármunum úr sjóðnum verði skipt milli sveitarfélaga á grundvelli fjölda mikið og miðlungsfatlaðra einstaklinga.

Tvískiptur sjóður er önnur leið. Sú leið felst í því að allir fjármunir renni í Jöfnunarsjóð. Sveitarfélög með 2.000 íbúa og fleiri fái greitt beint sem svarar 0,26% útsvarshlutfalli og einnig greiðslur á grundvelli fjölda mikið og miðlungsfatlaðra einstaklinga. Sveitarfélög með færri en 2.000 íbúa fái greitt úr sjóðnum á grundvelli fjölda og þjónustuþarfar allra fatlaðra.

Þriðja leiðin er sjóður. Þessi leið felst í því að allir fjármunir renni í jöfnunarsjóð og að öll sveitarfélög fái greitt úr sjóðnum á grundvelli fjölda og þjónustuþarfar fatlaðra. Hér komum við að vandasömu og viðkvæmu máli, hvort unnt er að skipta peningunum eftir þjónustuþörf hinna fötluðu einstaklinga.

Allar leiðirnar hafa sína kosti og allar sína galla en þannig er að af 124 sveitarfélögum, sem eru nú í landinu, munu um 80 hafa engan kostnað af fötluðum. Reykjavíkurborg hefur kostnað aðeins rúmlega í hlutfalli við íbúatölu eða hlutfall af íbúatölu landsins. Í Reykjavíkurborg eiga lögheimili um 41% af hinum fötluðu í landinu en aðeins tæp 40% landsmanna eru búsett í Reykjavík.

Hvað varðar tilhögun húsnæðismála þá leggur nefndin til að stofnað verði hlutafélag til að eiga og reka fasteignir í málaflokknum og sveitarfélögin greiði fulla leigu vegna húsnæðis enda tekur kostnaðarmatið tillit til slíkra leigugreiðslna. Með stofnun slíks fasteignafélags er stefnt að hagkvæmni og sveigjanleika í byggingu og rekstri fasteigna. Nefndin leggur áherslu á að fötluðum verði sjálfum gert kleift að greiða húsnæðiskostnað vegna íbúðarhúsnæðis í þeim mæli sem unnt er. Þannig verði réttur þeirra til húsaleigubóta rýmkaður frá því sem nú er og fötluðum í sjálfstæðri búsetu verði áfram tryggður sá hlutfallslegi stuðningur sem þeir fá nú í formi niðurgreiðslu og vaxtakostnaði í leiguhúsnæði.

Þá leggur nefndin til að sjóður í eigu sveitarfélaga greiði fyrir þjónustu endurhæfingardeildar Landspítalans í Kópavogi og sjálfseignarstofnana samkvæmt þjónustusamningi enda hefur verið tekið tillit til þess kostnaðar við kostnaðarmat. Sveitarfélögin hafi þannig sjálf svigrúm til að efla aðra þjónustu eftir því sem íbúum á vistheimilum fækkar. Gera má ráð fyrir því að biðlistar eftir þjónustu verði úr sögunni á þremur árum eftir tilfærslu þjónustunnar til sveitarfélaga.

Bent er á mikilvægi þess að stuðlað verði að því að smærri sveitarfélög taki sig saman um þjónustu við fatlaða, t.d. með byggðasamlögum. Á Norðurl. v. hafa sveitarfélögin t.d. tekið algjörlega við þjónustu við fatlaða. Þar mynduðu sveitarfélögin í Norðurl. v. byggðasamlag um sameiginlega yfirstjórn og þjónustu og síðan eru útstöðvar í hverju héraði, ein á Siglufirði, ein á Sauðárkróki, ein á Blönduósi og ein á Hvammstanga. Þetta gefur ákaflega góða raun og er prýðilegt form og mjög til fyrirmyndar, held ég, fyrir sveitarfélög sem taka við málaflokknum.

Herra forseti. Nú búum við við nokkra biðlista. Þeir eru að vísu sem betur fer að styttast og markvisst er unnið samkvæmt áætlun sem gerð var fyrir tveimur árum af nefnd sem hafði það verkefni að gera áætlun um hvernig unnið yrði á biðlistunum. En hv. alþm. til fróðleiks ætla ég að rifja upp hvernig staðan er í þessum málaflokki, þ.e. með biðlistana.

Nú búa 877 á sambýlum, í sjálfstæðri búsetu með frekari liðveislu, eða á vistheimilum. Þeim hefur fjölgað um 42 frá árslokum 1997. Íbúum í sambýlum hefur fjölgað um 55, þeim sem njóta frekari liðveislu hefur fjölgað um 16 en fækkað hefur á vistheimilunum um 29. Nú vantar 134 búsetu á sambýlum og 75 vantar frekari liðveislu. 17% þeirra sem eru á biðlistum eftir búsetu í Reykjavík njóta skammtímavistunar reglulega og 30% á Reykjanesi en á þessum tveimur svæðum eru biðlistarnir einkum. Áréttað skal að margir þeirra sem skráðir eru á biðlista njóta dagþjónustu og skammtímaþjónustu.

Á biðlista eftir búsetu eru þrír einstaklingar í fötlunarflokki sjö eldri en 21 árs. Í fötlunarflokki sex eru sjö einstaklingar eldri en 21 árs eða samtals tíu í tveimur þyngstu flokkunum og þar að auki eru 18 einstaklingar í fimmta flokki eldri en 21 árs. Það eru sem betur fer frekast þeir sem eru í léttari flokkunum sem vantar þjónustu sem eðlilegt er.

Í Reykjavík eru 29 án dagþjónustu. Þar af búa 14 manns á sambýlum. Innan skamms verður unnið að því að tryggja dagþjónustu fyrir alla í Reykjavík og það takmark er að nást. Á Reykjanesi eru 11 enn þá án dagþjónustu, þar af búa fjórir á sambýlum. Án þjónustu á þessum svæðum eru 22 einstaklingar og það er að sjálfsögðu 22 einstaklingum of margt en eins og ég sagði áðan er stöðugt og markvisst unnið að því að klára þessa biðlista.

Herra forseti. Ég vænti þess og geri það að tillögu minni að hv. félmn. fái málið til athugunar eftir umræðuna í kvöld. Það skal tekið fram svo að ekki valdi neinum misskilningi að í þeim kostnaðartölum sem ég hef verið að fara með að undanförnu eru ekki byggingarframkvæmdir á úrræðum fyrir þá sem úrræði vantar en hins vegar gert ráð fyrir rekstri þessa húsnæðis.