Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:27:09 (2077)

2000-11-21 21:27:09# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GÖ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:27]

Guðrún Ögmundsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má vel vera að foreldrum barna í vímuefnaneyslu finnist þau kannski ekki eiga greiðan aðgang vegna þess að þau falla í rauninni undir barnaverndarlög þegar málið er orðið svona alvarlegt og það er nokkuð sem foreldrum finnst auðvitað líka mjög erfitt. Það getur líka skýrt það að hluta. En það má heldur ekki gleyma því að með breytingunni á lögunum upp í 18 ára, þá eru foreldrar framfærsluskyldir gagnvart börnum sínum til 18 ára aldurs. Hins vegar hefur félagsþjónustan öll, bæði í Reykjavík og annars staðar, komið inn í mál af þessum toga er varðar einstaklinga. Eins hefur hún unnið mjög markvisst með Barnaverndarstofu varðandi úrræði sem þarf að nýta þannig að í pípunum er algjör opnun og mikið samstarf enda eru auðvitað allir settir undir barnaverndarlög um að reyna að rétta hag viðkomandi barns. Síðan getur viðhorfið orðið annað þegar börnin eru orðin 18 ára varðandi það hver eigi að taka þátt í að kostnaði ef foreldrar vilja senda barn erlendis í meðferð o.s.frv. Þá horfir málið kannski dálítið öðruvísi við.

Ég vil líka taka undir þetta með skörunina við geðheilbrigðismálin, þ.e. þessar alvarlegu geðraskanir. Ákveðinn hluti er hjá heilbrigðiskerfinu. En óttinn er auðvitað sá að það muni fara inn í félagslega kerfið, sem mér fyndist mjög eðlilegt. Mér hefur aldrei fundist eðlilegt að mál geðfatlaðra barna séu endilega í heilbrrn. en ekki félmrn. Það er spurning um að þetta ætti að skoða saman og þetta munum við eflaust ræða í nefndinni. Ég veit það, því skörunin er það mikil. Heilbrrh. hefur einmitt nefnt það í umræðum að þetta eigi að taka upp og skoða. Ég er t.d. líka ein af þeim sem vil ekki sjá sérlög um málefni aldraðra heldur gjarnan fella þau líka inn í þessi lög t.d.