Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:56:49 (2084)

2000-11-21 21:56:49# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:56]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu afar metnaðarfullt frv. sem felur í sér mun meiri þjónustu en veitt er í dag. Þarfirnar eru sífellt að breytast. Nýir og nýir hópar eru metnir inn í þjónustuna og mikil þróun í þessum málaflokki. Inn í rammalöggjöfina er nú hægt að fella hópa eða einstaklinga sem hafa lent á milli stafs og hurðar hingað til, eins og kerfið hefur verið.

Rauði þráðurinn í þessu frv. er að auka þá þjónustu sem fyrir er. Það er ljóst að í frv. eru settar fram auknar kröfur og skyldur á sveitarfélögin frá því sem nú er. Sveitarfélögin verða að setja sér mjög skýrar reglur um þá þjónustu sem þeim ber að veita og vil ég þar t.d. minna á 30. gr. um ferðaþjónustu.

Í þessu frv. felast breytingar og aukin þjónusta frá því sem nú er sem mun hafa í för með sér aukinn kostnað. Það felur í sér aukinn kostnað að færa svo stór verkefni sem málefni fatlaðra á milli stjórnsýslustiga. Þar þarf óhjákvæmilega að fara fram mikil undirbúnings- og þróunarvinna hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Þeir þurfa að afla sér fræðslu og ná tökum á þeim nýju verkefnum sem þeim eru falin samkvæmt frv. Það mun verða mikil breyting hjá fjölda starfsmanna sem flytjast munu frá ríki yfir til sveitarfélaga.

Kostnaðarnefnd hefur farið yfir málið og skilað skýrslu og félmn. mun fara mjög ítarlega í þá skýrslu.

Í 1. gr. frv. kemur fram að markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé að tryggja félagslegt og fjárhagslegt öryggi, stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og finna hvernig þeim markmiðum skuli náð. Greinin er að mestu leyti samhljóða þeim markmiðsgreinum félagsþjónustu sveitarfélaga sem hafa gefist mjög vel. Vegna þess að lögin mæltu svo fyrir að verkefni á sviði félagsþjónustu féllu undir félagsmálanefndir, sköpuðust víða forsendur fyrir ráðningu sérhæfðs starfsfólks þar sem ekkert var áður fyrr og mörg minni sveitarfélög sameinuðust um félagsmálanefnd.

Árið 1999 heyrði það í raun til undantekninga að sveitarfélag hefði ekki skipað félagsmálanefnd. Nokkur fjöldi minni sveitarfélaga á landsbyggðinni hefur reyndar ekki enn staðfest reglur um framkvæmd félagsþjónustunnar.

Sameining sveitarfélaga á undanförnum árum hefur leitt til þess að félagsþjónusta hefur fest í sessi. Stærri og öflugri sveitarfélög eru betur í stakk búin til að skipuleggja og veita faglega og vandaða þjónustu í samræmi við nútímakröfur. Það er ljóst að víðtæk samvinna sveitarfélaga um þessa þjónustu þarf að takast þegar þetta frv. verður að lögum.

[22:00]

Það er ekki endilega vegna fjárhagslegra ástæðna, heldur er um það að ræða að ekki er möguleiki að hafa öfluga félagsmálastofnun starfandi í fámennum sveitarfélögum. Því er víðtækt samstarf eða samvinna eða sameining sveitarfélaga nauðsynleg.

Meginforsenda fyrir góðri félagsþjónustu er að hæft starfsfólk með viðeigandi menntun hafi umsjón með henni og ég tel í rauninni að með þessu frv. sé landsbyggðinni á margan hátt gefið tækifæri, bæði til að þróa sig áfram í störfum og til þess að veita menntuðu fólki atvinnu. Þetta er töluverð ögrun fyrir sveitarfélögin. Í grg. með frv. kemur fram að rökin fyrir að þjónusta fatlaðra skuli verða viðfangsefni sveitarfélaga en ekki ríkis eru margþætt, fyrst og fremst er þó um að ræða sjónarmið um nærþjónustu annars vegar og jafnrétti og blöndun fatlaðra og ófatlaðra hins vegar.

Fötlun er margvísleg og misjöfn og það sama á við um þarfir einstaklinga. Markmið opinberrar þjónustu fatlaðra felst öðru fremur í að tryggja fötluðum jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þegna þjóðfélagsins og skapa þeim skilyrði til eðlilegs lífs, og ég held að einmitt sveitarfélögin með nærþjónustu sinni séu mjög vel til þess búin. Þau muni veita góða þjónustu.

Á undanförnum árum hefur viðhorf til þjónustu fatlaðra breyst sem er mjög jákvætt. Í núgildandi lögum er að finna aðrar áherslur en voru í eldri lögum, þetta er alltaf að lagast smátt og smátt.

Herra forseti. Nú þegar hafa allmörg sveitarfélög tekið að sér málefni fatlaðra sem hægt er að læra af einmitt í kjölfar þess þegar lögin verða komin til framkvæmda.

Í ákv. til brb. II, um sjálfseignarstofnanir, er gert ráð fyrir að þær sjálfseignarstofnanir sem greinin gæti tekið til, séu sjálfseignarstofnanir á vegum félagasamtaka, þ.e. Geðhjálpar, Blindrafélagsins, Styrktarfélags vangefinna og Þroskahjálpar á Reykjanesi, svo og sjálfseignarstofnanirnar Sólheimar í Grímsnesi, Skaftholt í Gnúpverjahreppi og Skálatún í Mosfellsbæ. Í greininni felst að áfram verði mögulegt að félmrn. og Samband íslenskra sveitarfélaga semji við sjálfseignarstofnanir um framhald þjónustu sem þær hafa annast og ég tel að þetta sé mjög mikilvægt.

Herra forseti. Í umsögn sem barst frá Barnaverndarstofu er atriði sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður og mig langar til að vitna í hana en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í reglum nr. 401/1998, um heimili og stofnanir sem reknar eru á grundvelli barnaverndarlaga, eru ítarleg ákvæði um kröfur sem gera skuli til starfsfólks og umhverfis á heimilum sem taka börn í sólarhringsdvöl, svo sem í sumardvöl. Reglum þessum er ætlað að stuðla að því að aðbúnaður og umönnun barnanna verði eins góður og hægt er á meðan þau dvelja fjarri heimilum sínum. Í 34. gr. frumvarpsins er fjallað um heimili fyrir fötluð börn, en ekkert kemur þar fram hvaða kröfur skuli gera til starfsfólks sem eiga að annast börnin á þessum heimilum eða hvernig heimilin og umhverfi þeirra skuli útbúin. Eðlilegt verður að teljast að sömu ákvæði gildi um heimili sem taka að sér börn á grundvelli barnaverndarlaga og heimila sem taka að sér fötluð börn.``

Ég tel að úr þessu verði að bæta.

Herra forseti. Frv. þetta markar mikil tímamót þegar það verður að lögum. Í því er reynt að tryggja áfram réttindi fatlaðra sem áður voru tryggð í sérlögum og jafnframt að tryggja að aðrir hópar sem hafa þörf fyrir sambærilega þjónustu fái hana, t.d. langveik börn og hópar fólks sem hafa verið jaðarhópar varðandi það að fá þjónustu.

Verið er að útvíkka réttindahugtakið og nú eiga allir rétt sem metnir eru að hafi þörf fyrir þjónustuna. Þetta þýðir að félagsþjónustan verður fyrir breiðari hóp fólks en verið hefur.

Ljóst er að með flutningi þessa málaflokks til sveitarfélaganna eru bundnar vonir við að þjónustan verði bætt. Litið er á yfirtöku sveitarfélaga á málefnum fatlaðra sem eðlilegan þátt í þróun sveitarstjórnarstigsins og þjónustu sveitarfélaga við íbúa sína.