Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:14:09 (2086)

2000-11-21 22:14:09# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:14]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og hefur ágætisumræða farið fram um frv. í kvöld, en eins og ég hef viðrað í andsvörum hef ég verulegar áhyggjur af því hvaða afstöðu ýmsir þeir er málið varðar hafa til lagasetningarinnar.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Soffíu Gísladóttur hafa aðstandendur fatlaðra einstaklinga verið mjög ánægðir með þjónustu sveitarfélaga við fatlaða í reynslusveitarfélögunum. Það fer alveg saman við umsagnir t.d. Þroskahjálpar, sem er félag aðstandenda fatlaðra einstaklinga, sem leggja til að frv. verði samþykkt, reyndar með ýmsum athugasemdum. Aftur á móti hef ég verulegar áhyggjur af því hver afstaða Öryrkjabandalags Íslands er til málsins og vil ég lesa upp þá umsögn, sem er stutt, til Alþingis um frv.:

[22:15]

,,Öryrkjabandalag Íslands hefur miklar og vaxandi efasemdir um réttmæti þess að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Öryrkjabandalag Íslands hvetur því stjórnvöld til að falla frá frumvarpi þar um þótt í því og fylgifrumvörpum þess sé margt jákvætt sem með góðum vilja má fella að gildandi lögum um málefni fatlaðra og tengdum lögum, enda mikil og um margt afar gagnleg vinna að baki. Hjá því verður vart horft að aðstæður fatlaðra gefa því miður ekki tilefni til að afnema lögin um málefni þeirra. Þvert á móti er það eindregin skoðun Öryrkjabandalagsins að í þeim efnum megi færa margt til betri vegar með því að auka við og efla lögin um málefni fatlaðra.``

Þetta er umsögn Öryrkjabandalagsins og síðan kemur greinargerð sem er nánast samhljóða grein þeirri er hv. þm. Ögmundur Jónasson vitnaði til í máli sínu, sem ég ætla ekki að endurtaka en þar kemur afstaða stjórnar Öryrkjabandalagsins mjög skýrt fram. Stjórninni þar hefur snúist hugur og ég veit til þess að áður en umsögnin barst þinginu, voru greidd atkvæði um málið í stjórn Öryrkjabandalagsins og þar var þessi afstaða samþykkt með öllum greiddum atkvæðum en tveir sátu hjá. Ég verð því að segja að ég hef verulegar áhyggjur af þessari afstöðu til málsins.

Í morgun komu einnig fram í félmn. ákveðnar efasemdir og áhyggjur sveitarstjórnarmanna um yfirtökuna á málefnum fatlaðra. Stærri sveitarfélögin lýstu því yfir að þau hefðu verulegar áhyggjur af þessu. Það verður að segjast eins og er að yfirtaka sveitarfélaganna á rekstri grunnskólans er kannski ekki til þess að menn séu alveg í rónni vegna þess að eins og kom fram hjá sveitarstjórnarmönnum fylgir þar ýmis kostnaður sem sveitarfélögin þurfa að taka yfir, sem er alls ekki gert ráð fyrir að sé til staðar, bæði það sem snýr að reglugerðum og lögum. Menn lýstu því yfir að þeir hefðu áhyggjur af þessu og ég deili þeim.

Sömuleiðis má segja að ekki sé óeðlilegt, herra forseti, að menn hafi áhyggjur af flutningi þessa viðkvæma málaflokks til sveitarfélaganna ef fjármagn fylgir ekki. Við höfum reynslu af því að Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur verið skertur um 1,5 milljarða frá því ríkisstjórnin tók við völdum, 1,5 milljarða af mörkuðum tekjustofnum sem átti að berast framkvæmdasjóðnum samkvæmt lögum. Vissulega er ástæða til að hafa áhyggjur af því ef framhald verður á slíku.

Einnig má benda á, eins og kom reyndar fram hjá hæstv. ráðherra í framsögunni, að verulegir biðlistar eru eftir þjónustu. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá yfirvöldum bæði í Reykjavík og á Reykjanesi um bið eftir búsetu fyrir fatlaða, eru á þriðja hundrað manns sem bíða eftir þjónustu. Samkvæmt upplýsingum ráðherrans voru það um tvö hundruð. Það er spurning hvor talan er rétt, tvö hundruð eru of margir sem bíða eftir þjónustu á þessu svæði. Það er kannski ekki skrýtið að menn hafi ákveðnar áhyggjur og hræðist það að kannski muni ekki ganga betur að fá fjármagn í þetta þegar málaflokkurinn er kominn yfir til sveitarfélaganna en er núna hjá ríkinu.

Einnig hafa komið fram áhyggjur hjá sveitarstjórnarmönnum um að gildistökuákvæðið í lögunum gæti ekki staðist, þetta mundi ekki geta gengið á þessum tíma. Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að skoða í nefndinni hvort gildistökuákvæðið er raunhæft.

Mig langar til að minnast á ýmis atriði. Eins og ég sagði áðan hefur Þroskahjálp sent umsögn sem er jákvæð til þessa frv., en hefur gert ýmsar athugasemdir sem við munum að sjálfsögðu fara yfir í nefndinni. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að fara yfir þær athugasemdir en þó eru hér nokkur atriði sem ég hefði viljað nefna.

Áður en ég kem að athugasemdum Þroskahjálpar vil ég geta þess vegna athugasemdar Öryrkjabandalagsins að það er mjög mikilvægt að nefndin sendi öllum aðildarfélögum Öryrkjabandalagsins málið til umsagnar. Ég vildi kannski spyrja formann hv. félmn. hvort öll aðildarfélögin hafi fengið málið en auðvitað þurfum við að senda málið aftur út til umsagnar eftir þessa umræðu. Ekki dugir til að hafa sent það út í vor. Ég ætla að vona að það sé almennt skilningur manna í salnum að málið verði sent út, annað væru óeðlileg vinnubrögð í þinginu og það er venjan. Ég heyrði það úr salnum að búið væri að senda það út. Mér finnst ólíklegt að það sé búið að því þar sem málið hefur ekki verið afgreitt í umræðunni og er alls ekki komið til nefndar.

Ég hefði gjarnan viljað fá aðeins útskýringu á skilgreiningu á vinnu og vernduðum vinnustöðum. Samkvæmt skilgreiningu eða skýringu á 59. gr. segir:

,,Talið er ljóst að störf á vernduðum vinnustöðum þar sem fram fer framleiðsla og þjálfun og gerð er krafa um vinnuframlag gegn launum falla ekki að óbreyttu undir lög um vinnumarkaðsaðgerðir.``

Reyndar verður sérstakt þingmál hér til umfjöllunar á eftir um vinnumarkaðsaðgerðir í tengslum við þetta frv. en samkvæmt þessari grein er talað um að Vinnumálastofnun geri úttekt á þessum vernduðu vinnustöðum og ég spyr hæstv. ráðherra hvort sú úttekt hafi farið fram.

Ég tek einnig eftir því að í umsögn fjmrn. er ekki gert ráð fyrir að sú úttekt kosti neitt. Það finnst mér dálítið sérstakt þannig að ég vildi líka spyrja að því hvort menn geri ráð fyrir að úttekt á vinnustöðunum kosti ekki neitt.

Einnig spyr ég hæstv. ráðherra --- og ég spyr hvort hæstv. ráðherra sé í húsinu, herra forseti ---

(Forseti (ÍGP): Það skal tekið fram að forseti hefur kannað það að ráðherra er hér í hliðarherbergi.)

Herra forseti. Ég spurðist fyrir um það hvort Vinnumálastofnun væri búin að fara í þá vinnu sem gert er ráð fyrir og sem snýr að þessum frv., bæði vinnumarkaðsaðgerðafrumvarpinu og þessu um málefni sveitarfélaga, ef ég gæti kannski fengið upplýsingar um það. Ég spyr hæstv. ráðherra einnig hvort ekki sé full ástæða til þess að allur þátturinn sem snýr að atvinnumálum komi til ríkisins en ekki sé verið að skipta því á milli sveitarfélaganna, þ.e. öll vinnustarfsemin, bæði iðjan, hæfingin og svo önnur vinna.

Í umsögn frá Þroskahjálp var vitnað til athugasemda í einni greininni um að semja við einstaklinga um þjónustu eða einkaaðila og ég spyr hæstv. ráðherra hvort verið sé að boða einhverja einkavæðingu í félagsþjónustunni með þeirri tilvitnun sem er í 36. gr. um þjónustusamninga þar sem er talað um einkaaðila. En Þroskahjálp hefur áhyggjur af því að þarna sé verið að fara út í einkavæðingu með því að tiltaka sérstaklega einkaaðilana. Ég vildi gjarnan fá skýringar hjá hæstv. ráðherra á því.

Sömuleiðis koma fram í umsögn Þroskahjálpar vissar áhyggjur vegna gjaldtökugreinarinnar, sem er 53. gr., þar sem talað er um gjaldtökuheimild vegna liðveislu, skammtímavistunar og stuðningsfjölskyldna. Reyndar kemur greinilega fram í umsögninni um greinina að ekki er gert ráð fyrir að tekin sé upp sérstök gjaldtaka fyrir þessa þjónustu eftir því sem ég skil best og hæstv. ráðherra ... (Félmrh.: Það er búið að breyta frv.) Já, ég þóttist sjá það þegar ég fór að skoða þessa athugasemd. Ég ætlaði bara að fá það staðfest hjá hæstv. ráðherra sem hann hefur gert hér, herra forseti.

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að kannski væri ekki að ástæðulausu að menn hefðu áhyggjur af því að taka yfir þennan málaflokk vegna þess að Framkvæmdasjóður fatlaðra hefur ekki fengið það fjármagn sem honum var ætlað samkvæmt lögum. Ég vil geta þess sérstaklega að bara í ár er erfðafjárskatturinn 607 millj. en aðeins 235 millj. eiga að koma í uppbyggingu á úrræðum fyrir fatlaða. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort meiri líkur séu á því að fjármagn skili sér til málaflokksins eftir að þjónustan er komin til sveitarfélaganna.

Í ákv. til brb. II er talað um sjálfseignarstofnanir og eru þær taldar upp í skilgreiningu við það ákvæði. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji koma til greina, eins og hefur kannski aðeins verið rætt, að Sólheimar í Grímsnesi yrðu reynslusveitarfélag, vegna þess að þar er komin það mikil önnur þjónusta í tengslum við þjónustu við fatlaða að þetta er orðið eins og lítið samfélag. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann teldi e.t.v. að einhver slíkur rekstur kæmi til greina á þeim stað þar sem hefur verið mjög mikil gróska og uppbygging í sambandi við þjónustu við fatlaða og ýmislegt annað í sambandi við umhverfisvæn verkefni.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara í miklar málalengingar um þetta frv. en hef varpað fram nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra sem ég geri ráð fyrir að hann svari í lokaræðu sinni. Ég spyr hann að því hvort hann telji að gildistökuákvæðið geti staðist vegna þess að sveitarstjórnarmenn hafa haft áhyggjur af því að erfitt verði að taka málaflokkinn yfir og vera búin að því fyrir þá dagsetningu sem er í gildistökugreininni.

Sömuleiðis hefði ég gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra um þjónustu við geðveik börn og geðfötluð börn en það hefur verið áhyggjuefni aðstandenda þeirra að þau hafi viljað lenda svolítið á milli félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins. Ég vildi því gjarnan fá, herra forseti, að heyra það frá hæstv. ráðherra í lokaræðu hans hvernig hann sér þjónustu við geðfötluð og geðsjúk börn.

Ég held ég hafi þetta ekki lengra en ég mun koma að þessu máli í nefndinni.