Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:32:30 (2088)

2000-11-21 22:32:30# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:32]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að koma með þessar upplýsingar hér. Ég tek undir það með henni að nauðsynlegt er að senda þetta mál út aftur því að greinilegt er að afstaða manna hefur verið að breytast eins og kemur fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, að það hafi miklar og vaxandi efasemdir um réttmæti þess að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Og vissulega eru það þá fagleg vinnubrögð hér í þinginu og hjá þingnefndinni að senda málið út. Menn geta þá annaðhvort ítrekað fyrri umsagnir sínar eða þá sent inn nýjar umsagnir ef þeir hafa skipt um skoðun. Því eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra í svari við andsvari frá mér í upphafi umræðunnar er náttúrlega mjög erfitt að ætla að fara að gera þessar miklu breytingar ef heildarsamtök fatlaðra eru á móti málinu. Þó svo að aðstandendur fatlaðra séu hlynntir því, eins og Þroskahjálp, þá verða auðvitað fatlaðir sjálfir að vera sammála eða a.m.k. ekki andstæðir slíkum breytingum.

Ég fagna því, herra forseti, að þessi vinnubrögð skuli viðhöfð í nefndinni.