Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:32:56 (2104)

2000-11-21 23:32:56# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:32]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum hér er í raun um að framlengja þá breytingu sem gerð var á þessum lögum sl. vor um eitt ár. Hæstv. ráðherrann sagði hins vegar sl. vor, með leyfi forseta:

,,Eins og fram hefur komið ber mér að leggja fyrir Alþingi endurskoðað frv. fyrir 1. nóv. næstkomandi. Ég held að við ættum að geyma okkur umræðuna um heildarendurskoðunina þangað til á næsta þingi þegar það mál verður tekið fyrir. Eins og við vitum eru fiskveiðistjórnarlögin í heild sinni í endurskoðun og ekkert óeðlilegt þótt endurskoðun á þessu fylgi að einhverju leyti með.``

Þegar þetta var rætt hér í vor var einmitt bent á að þessi lög þyrfti að endurskoða fyrir nóv. á þessu ári. Þar með hefði verið ástæðulaust að taka upp þá breytingu sem ráðherrann lagði til á síðasta þingi. Hún var m.a. rökstudd með því að tryggja yrði að sem bestur árangur næðist við að veiða síldina og hægt yrði að færa hana hindrunarlítið á milli skipa.

Nú langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hversu mikið hafi veiðst úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir þeim lögum sem við unnum eftir á síðustu vertíð og hvort þar sé veruleg breyting á frá því sem var árin á undan. Náðum við að klára kvótann og ef ekki, hversu mikið skildum við eftir?

Mig langar einnig að leggja þá spurningu fyrir hæstv. sjútvrh. hvort hann sé, með því að fresta þessu máli eða fleyta því fram um eitt ár og láta lögin gilda fram til 2002, kannski að boða að nefndarstarf sem nú er í gangi um stjórn fiskveiða muni taka lengri tíma en hann lét að liggja fyrr í haust. Eigum við þá von á fleiri frestunum á þessu þingi með líku sniði vegna þess að eigi hafi tekist að framkvæma þá heildarendurskoðun sem að er stefnt og vitnað er til í röksemdafærslunni fyrir þessu frv. nú?

Þetta eru þær spurningar sem ég vildi leggja fyrir ráðherrann. Að öðru leyti vil ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að ekki hafi verið nauðsynlegt að gera þessa breytingu í vor miðað að við hefðum hér fjallað um nýendurskoðuð lög eins og lögin um norsk-íslenska síldarstofninn kváðu á um, að hér skyldi lagt fram nýtt frv. á haustdögum fyrir 1. nóv. sl.