Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:36:44 (2105)

2000-11-21 23:36:44# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Vestf. fyrir spurningarnar og tilvitnun í ræðu mína frá því í fyrra. Ég fæ ekki annað heyrt en fullt samræmi sé á milli þess sem ég sagði þá og þess sem ég segi hér í kvöld. Varðandi það að breytingin í fyrra hafi verið ástæðulaus þá tel ég að svo hafi ekki verið. Ég held að það hafi komið fram við stjórn veiðanna í sumar að vegna þeirra heimilda sem eru í lögunum í dag og nýttust sl. sumar þá þurfti sjútvrh. ekki að hafa afskipti af veiðunum með því að endurúthluta líkt og gera þurfti þrisvar sinnum árið þar á undan, ef ég man rétt.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig niðurstöðutölurnar voru eftir síldarvertíðina en mig minnir að þegar veiðunum lauk í sumar hafi verið um rúmlega 10 þús. tonn eftir og þá var eftir að veiða það sem við máttum veiða inni í lögsögu Norðmanna í haust. Hversu mikið var veitt þar man ég ekki þannig að ég get ekki alveg svarað spurningunni nákvæmlega. Út af fyrir sig hafa þar ekki orðið neinar stórkostlegar breytingar frá fyrri árum. Mig grunar nú samt einhvern veginn að hv. þm. viti þessar tölur og muni jafnvel segja okkur þær hér á eftir.

Varðandi nefndarstarfið, endurskoðunina, þá vona ég innilega að það nái að klárast það snemma að frumvarpssmíð takist og hægt verði að leggja fram frv. og afgreiða hér á yfirstandandi þingi.