Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:43:17 (2110)

2000-11-21 23:43:17# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:43]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Þegar stór mál eru til umræðu í þinginu þá er ekki alltaf hægt að treysta á nákvæmar dagsetningar og hvenær þinglok verða. Eins og hv. þm. veit gæti síldarvertíðin hafist áður en þingmenn ljúka störfum í vor. Í öllu falli er mjög æskilegt að þeir sem ætla sér að stunda síldveiðar úr norsk-íslensku síldinni á næstu vertíð viti með nokkuð góðum fyrirvara eftir hvaða reglum þeir eiga að starfa. Því er alveg ástæðulaust að draga þær ályktanir út frá flutningi þessa frv. að einhver töf verði á starfi nefndarinnar sem er að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða. Fram til þessa hefur ekkert gerst sem ég veit um sem breytir í nokkru því sem ég hef áður sagt um þær vonir sem ég bind við störf nefndarinnar og það hvernig málið getur síðan haldið áfram hér inn í þingsali.