Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:49:49 (2115)

2000-11-21 23:49:49# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:49]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef nú ekki miklu við þetta að bæta. Þó er eitt atriði sem mér finnst áhugavert að fá kannski aðeins betur á hreint. Lögin um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum sem sett voru á maídögum 1998 tóku í raun og veru af þau ákvæði svonefndra úthafsveiðilaga sem að öðru óbreyttu hefðu gilt um meðferð mála og stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum, sem er deilistofn eða þó kannski nær því að hegða sér eins og hreinn úthafsveiðistofn hvað okkur varðar um þessar mundir, þ.e. hann er að mestu leyti utan íslensku efnahagslögsögunnar.

Rök hæstv. sjútvrh., sem út af fyrir sig eru vel skiljanleg, fyrir því að framlengja enn um ár það fyrirkomulag sem verið hefur á stjórn veiða þessa stofns nú undanfarin ár, eru að þetta eigi að skoðast í svonefndri endurskoðunarnefnd. Er það þá afstaða hæstv. ráðherra og liggur það fyrir samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar eða er þar á dagskrá að endurskoða jafnframt svonefnd úthafsveiðilög? Er þess að vænta að endurskoðunarvinnan taki jöfnum höndum til þeirra ákvæða sem gilda um stjórn veiða innan íslensku efnhagslögsögunnar, þ.e. laganna um stjórn fiskveiða og þeirra ákvæða sem gilda um stjórn veiða á deilistofnum og úthafsveiðistofnum og meðferð þeirra mála? Má með öðrum orðum reikna með því að fyrirkomulag fiskveiðistjórnar t.d. á Reykjaneshrygg, Flæmska hatti eða útdeiling veiðiréttinda í Barentshafi taki breytingum í tengslum við starf endurskoðunarnefndarinnar?

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, að það sé að sannast sem margir spáðu, að það væri ekki endilega mjög gæfulegt að fara út í þessa bráðabirgðasérráðstöfun sem setning þessara skrýtnu laga var á sínum tíma þegar síldarvertíðin var að hefjast á vordögum í maí 1998. Nú er verið að leggja til að fjórðu vertíðina í röð framlengist þetta sérstaka fyrirkomulag sem fundið var út, með smábreytingum sem á því hafa verið gerðar síðan. Þar var vikið til hliðar öllu sem heitir aflareynsla af frjálsum veiðum árin á undan. Þar var ekki um að ræða sambærilega meðferð og viðhöfð var, t.d. þegar veiðiréttindum var útdeilt á Reykjaneshrygg eða í öðrum þeim tilvikum sem fyrir lágu sem fordæmi. Aftur á móti var búin til afar sérkennileg regla um að veiðiréttindum skyldi útdeilt samkvæmt formúlu sem annars vegar tók mið af burðargetu skipa sem gátu farið á veiðar eða höfðu veitt árin á undan og hins vegar var jöfn úthlutun.

Síðan var að sjálfsögðu sagt að þetta væri bráðabirgðaráðstöfun sem ætti ekki að gefa neitt fordæmi og allt yrði þetta endurskoðað þar sem síldin mundi væntanlega breyta um hegðun, aðstæður breytast o.s.frv. En eins og stundum áður, sem örugglega á eftir að gerast aftur, festist síðan þessi bráðabirgðaráðstöfun í sessi og verður smátt og smátt að grundvellinum ár eftir ár. Nú hefur nákvæmlega hið sama gerst. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta var hvorki sérstaklega heppileg né sanngjörn ráðstöfun á sínum tíma.

Þar með er ekkert sagt um hvort menn voru sérstaklega hrifnir af þeim reglum sem settar voru í lög um úthafsveiðar á sínum tíma og áttu að gilda um almenna meðferð mála að þessu leyti. Það er önnur saga, hvort allir voru ánægðir með nákvæmlega það fyrirkomulag þessara mála eða ekki. En það voru lögin sem giltu, hin almennu lög og hinar almennu leikreglur. Þeim var með þessum sérstöku ákvæðum vikið til hliðar og það réttlætt með því að ekki væru aðstæður eða forsendur til að ganga varanlega frá málum. Þá var mikið talað um að vonandi mundi nú síldin breyta um hegðun og ganga inn í íslensku lögsöguna. Það mátti jafnvel skilja það svo að menn gætu farið að veiða hana, ef ekki bara úr landi með kastnót, alla vega á minnstu skipum uppi undir fjörusteinum eins og var hér í gamla daga. Það hefur ekki gerst, því miður verðum við kannski að segja. Því miður er heldur ekki útlit fyrir að mikil breyting verði á í þeim efnum á næstu árum miðað við nýjustu fréttir af stöðu þessa stofns til næstu ára, sem ekki vex með þeim hætti sem menn gerðu sér vonir um á þessum árum.

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, þó að það sé kannski að æra óstöðugan að vera að tíunda það, enda óðum að verða pólitísk fiskveiðipólitísk sagnfræði, að rifja þetta aðeins upp við þær aðstæður að enn einu sinni er bráðabirgðaráðstöfun af þessu tagi framlengd. Það er alls ekkert öruggt að við sjáum fyrir endann á því. Hver er kominn til með að segja að niðurstaða endurskoðunarnefndarinnar gefi tilefni til að breyta þessu fyrirkomulagi í grundvallaratriðum? Þá víkja menn a.m.k. alveg til hliðar þeim rökum sem menn notuðu árið 1998 til að verja þessa aðgerð eða réttlæta. Þá er mikill skaði, herra forseti, að hér skuli ekki vera hæstv. utanrrh. sem ég hef grun um að hafi verið nokkur áhrifavaldur um þessa lagasetningu, af ýmsum ástæðum sem kannski er óþarfi að fara nánar út í hér.