2000-11-22 00:10:55# 126. lþ. 28.11 fundur 254. mál: #A lækningatæki# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[24:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál en get tekið undir það að mikilvægt er að við afgreiðum þessi mál í heilbr.- og trn. Um atriðin sem þetta frv. fjallar um eru bindandi ákvæði í alþjóðasamningum og í EES-tilskipunum sem við erum aðilar að og ber að lögfesta.

Samkvæmt athugasemdum við frv. er aðlögunartími að nokkru liðinn varðandi einhver ákvæðin þannig að ég held að brýnt sé orðið að taka þetta mál til umfjöllunar og afgreiða það. Hér er fjallað um skilgreiningu og merkingu á lækningatækjum og reglur um slík tæki. Það er mikilvægt að setja slík ákvæði í lög. Þó að mikilvægt sé að þetta verði að lögum þá tel ég fulla ástæðu til að heilbr.- og trn. fari vel yfir málið og kalli til sín þá sem ástæða er til að fá álit hjá varðandi þetta frv. Ég mun vissulega leggja mitt af mörkum til að það verði sem fyrst að lögum.