2000-11-22 00:21:50# 126. lþ. 28.12 fundur 170. mál: #A réttindi sjúklinga# (biðtími) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[24:21]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um réttindi sjúklinga, lögum sem voru sett á árinu 1997. Það fjallar um bið eftir meðferð og í tillögunni er annars vegar lagt til að sjúklingi sé gefinn kostur á bókun aðgerða þurfi hann að bíða eftir aðgerð og hins vegar að sett verði mörk við biðtíma eftir aðgerð þannig að hann verði að jafnaði ekki nema 3--6 mánuðir en í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir slíkum mörkum.

Það er nú svo að oft hafa biðlistar verið notaðir sem ákveðinn mælikvarði á gæði og virkni heilbrigðiskerfa en það er hins vegar staðreynd að í flestum löndum heims er þetta vandamál til staðar. Á Norðurlöndum hafa biðlistar t.d. verið viðvarandi og ef eitthvað er hafa þeir verið að lengjast hin síðari ár. Hins vegar er það ekki raunin hér. Það kom fram í ræðu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að biðlistar hefðu verið að lengjast hér á landi. Áður en ég fór í þessa umræðu í dag skoðaði ég gögn frá 1997. Þar kemur fram að álíka margir voru á biðlista árið 1997 og eru í dag þannig að þeir hafa ekki verið að lengjast. Þó að í einhverjum tilvikum innan ákveðinna sérgreina hafi þeir lengst lítillega þá hafa líka þeir styst innan annarra sérgreina eins og almennra skurðdeilda, háls-, nef- og eyrnalækninga og innan hjartadeilda. Það er því ekki alveg einhlítt að þeir hafi verið að lengjast.

Á Norðurlöndum hafa verið settar reglur um hámarksbið eftir aðgerð eða meðferð eins og kom fram í máli hv. þm. Hins vegar hefur gengið á ýmsu við að framfylgja reglum um hámarksbið. Umræðan í þessum löndum hefur í ýmsum tilvikum beinst að því að setja stofnunum þjónustumarkmið í stað reglna um hámarksbiðtíma þannig að í stað þess að einblínt sé á einstaka sjúklinga eða sjúklingahópa er gerð grein fyrir árangri starfseminnar og hvaða þjónustumarkmiðum stofnunin hefur náð. Í einhverjum tilvikum hafa reyndar einnig verið settar reglur um að sjúklingar hafi rétt á að innan tilskilins frests fái þeir að vita hvenær vænta megi þess að þeir fari í aðgerð. Ég held að þær reglur séu til góða.

Eins og fram kom í máli mínu áðan höfum við vitneskju um biðlista hér á landi. Þeir eru teknir saman tvisvar á ári af landlækni og eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur hér áðan þá eru í kringum 6.500 manns á biðlista. En það er hins vegar ekki svo að fólk á biðlistum sé allt í bráðri þörf eða óvinnufært eins og oft hefur verið talað um, þó að vissulega séu þess dæmi og jafnvel erfið dæmi.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að fólk er á biðlistum. Við vitum að aðsókn í heilbrigðisþjónustuna hefur aukist og auknar kröfur eru gerðar til þjónustunnar. Fólk er sett á biðlista en er í raun að bíða eftir heppilegum tíma til að fara í aðgerð. Í einhverjum tilvikum eru t.d. börn á biðlista vegna þess að þau þurfa að ná tilteknum þroska áður en þau fara í aðgerðina og jafnvel í einhverjum tilvikum þurfa börnin líka ákveðna meðferð áður en þau fara í aðgerðina. Það er því ekki svo að allir á biðlistanum séu í brýnni þörf og óvinnufærir heima hjá sér. Það er einföldun á málinu að setja þetta þannig fram.

Í skýrslu um forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu, sem byggir á störfum nefndar þess efnis og lauk störfum á árinu 1998, er sérstaklega tekið á biðlistum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Enginn skal vera á biðlista nema um viðurkennda þörf fyrir aðgerð eða rannsókn sé að ræða.``

Einnig segir þar: ,,Hámarksbiðtíma eftir þjónustu skal skilgreina eftir því sem við á í hverju tilviki en hann skal ekki vera lengri en 3--6 mánuðir.``

Jafnframt er lagt til að biðlistar séu flokkaðir í þrjá flokka: þörf, brýna þörf og mjög brýna þörf. Því er ljóst að það er stefna heilbrigðisyfirvalda að setja ákveðnar reglur um biðlista og sú stefna er endurtekin í nýframlagðri heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

Ég tel að mikil þörf sé á að halda umræðunni áfram og leggja niður fyrir okkur leiðir sem við eigum að fara í þessu sambandi. Markmiðið á náttúrlega alltaf að vera að sjá til þess eða finna leiðir til að tryggja að fólk fái heilbrigðisþjónustu þegar það þarf á henni að halda og reglur um biðlista gætu verið ein leið í því sambandi. Ég tek undir það sem hefur komið fram á undan að biðlistar geta verið þjóðhagslega óhagkvæmir og geta haft óheppilegar afleiðingar fyrir fólk. Þess vegna er ástæða til að skoða þetta sérstaklega.

Í tengslum við þessa skoðun, sem kemur í kjölfarið á framlagningu á þessu frv., hef ég jafnframt áhuga á að hv. heilbr.- og trn. skoðaði t.d. rétt einstaklinga til að leita sér meðferðar í löndum EES en það kemur m.a. fram í Berlinske Tidende í dag að frá 1. júlí sl. hafa Danir þennan rétt og kostnaður er að einhverju eða öllu leyti greiddur af danska ríkinu. Jafnframt kemur fram að afar fáir hafi nýtt sér þennan rétt og við þurfum einmitt að skoða hvernig þetta snýr að Íslendingum. Þetta var í umræðunni fyrir nokkrum mánuðum og jafnvel í blöðunum en ekki var alveg ljóst hvernig þetta lægi fyrir okkur.

Ég fagna því þessu frv. og ég vonast til að umræður skapist um hvaða leiðir eru færar til að stytta biðlista hér á landi. Þó get ég ekki alveg sagt að ég hafi tekið beina afstöðu til frv. Ég geri það ekki núna því ég vil skoða þessi mál í víðara samhengi og vita hvaða aðrar leiðir eru færar. Ég hlakka til áhugaverðrar umræðu um þetta mál í hv. nefnd þegar það kemur þangað.