Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:40:37 (2127)

2000-11-22 13:40:37# 126. lþ. 30.1 fundur 84. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar vegna þess að við erum að ræða um umferðaröryggismál sem skipta okkur öll verulega miklu máli og við þurfum öll að taka á í baráttunni gegn þeim alvarlegu slysum sem hafa orðið í umferðinni.

Hún spyr í fyrsta lagi um þá fjóra lögreglumenn sem verða ráðnir til umferðardeildar ríkislögreglustjóra. Á þeim fundi sem hv. fyrirspyrjandi vísar voru kynntar margháttaðar aðgerðir í umferðarmálum, þar á meðal nýtt samkomulag ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar um eflingu almenns umferðareftirlits. Á grundvelli þess heimilaði dómsmrn. í júlí sl. ríkislögreglustjóra að auglýsa þrjár stöður lögreglumanna við umferðardeild ríkislögreglustjóra. Þeir lögreglumenn hófu störf í umferðardeildinni 1. nóvember sl. og þetta eru ný störf. Ætlunin er að starfsmenn umferðardeildarinnar sinni þessu samstarfi, auk þess sem lögreglustjórinn á Akureyri leggi til einn lögreglumann í verkefnið. Þrjár af fjórum bifreiðum, sem ætlað er að sinna þjóðvegaeftirlitinu, verða því gerðar út frá Reykjavík en ein frá Akureyri.

Um árabil hefur verið skipulegt samstarf milli lögreglunnar og Vegagerðarinnar við umferðareftirlit. Það hefur beinst að stórum ökutækjum, þyngd þeirra, ástandi ökutækjanna og álestri á ökuritaskífur vegna hvíldartíma ökumanna. Í framhaldi af skýrslu vinnuhóps ríkislögreglustjórans og Vegagerðarinnar á árinu 1999 var talið heppilegt að útvíkka þetta samstarf og efla þannig samvinnu ríkislögreglustjóra og Vegagerðarinnar sem beindist að almennu umferðareftirliti á þjóðvegum landsins. Ráðning þriggja lögreglumanna hjá ríkislögreglustjóra til þessa verkefnis, auk eins lögreglumanns á Akureyri, er liður í því að auka samvinnu á milli lögreglunnar og Vegagerðarinnar um umferðareftirlit. Stefnt er að því að á næstunni geri ríkislögreglustjóri og Vegagerðin sérstakt samkomulag um nánari útfærsluatriði þessa umferðareftirlits en það nær til eftirlits með ökuritum, öxulþunga bifreiða og annarra umferðarlagabrota. Hér er um að ræða mikilvæga viðbót við það umferðareftirlit sem er þegar á þjóðvegum.

Í öðru lagi er spurt um vegaeftirlitsbíla, fjóra talsins, sem sinni eftirliti á þjóðvegum. Því er til að svara að um árabil hefur sá háttur hefur verið hafður á að fjórar bifreiðar frá Vegagerðinni hafa verið í vegaeftirliti mannaðar bæði vegaeftirlitsmanni og lögreglumanni. Þrjár þeirra hafa verið gerðar út frá Reykjavík, mannaðar lögreglumönnum úr Kópavogi og Reykjavík, en ein bifreið er gerð út frá Akureyri mönnuð lögreglumönnum þaðan. Meðal þess sem ákveðið var í samkomulaginu er að þessar fjórar bifreiðar Vegagerðarinnar sem sinna umferðareftirliti fái auk merkinga frá Vegagerðinni merki lögreglunnar og verði búnar tækjum til hraðamælinga og forgangsaksturs. Með þessu skapast sá möguleiki að sinna bæði verkefnum Vegagerðarinnar, svo sem eftirliti með öxulþunga, og verkefni lögreglunnar, svo sem hraðamælingum. Auk þess fjölgar merktum lögreglubifreiðum á þjóðvegum landsins sem skapar aukið aðhald á ökumenn með sýnilegri löggæslu.

Einni bifreiðinni úr Reykjavík var breytt í júlí sl. í merkta lögreglubifreið sem hefur einnig merki Vegagerðarinnar. Má segja að lögreglumaðurinn sem starfar á merktu lögreglubifreiðinni hafi strax í júlí sl. útvíkkað starfssvið sitt í almenn umferðarlagabrot eins og stefnt var að. Aðrar eftirlitsbifreiðar eru enn sem komið er aðeins merktar Vegagerðinni en stefnt er að því að gera nýjar bifreiðar tilbúnar fyrir almennt umferðareftirlit innan skamms. Nokkurn tíma hefur tekið að útvega nýjar bifreiðar og merkja þær á viðhlítandi hátt og útbúa ákveðnum tækjum en ég geri ráð fyrir því að það gerist innan skamms að þær komist allar í þetta ákveðna eftirlit.

Þetta nýja fyrirkomulag er eins og áður sagði mikilvæg viðbót við það eftirlit sem er fyrir hendi á þjóðvegunum. Mörg alvarleg slys áttu sér stað á þjóðvegunum á liðnu sumri en meðal nauðsynlegra viðbragða er efling umferðareftirlits sem hefur nú verið ráðist í. Ég stefni að því að efla það enn frekar á næstu missirum. En það er margt fleira sem þarf að skoða, þar með talin viðurlög við umferðarbrotum, öryggi umferðarmannvirkja, ökunám, fræðsla o.fl. Ég stofnaði einmitt nefnd til þess að gera tillögur að breytingum á umferðarlögum sem horfa til aukins umferðaröryggis í umræddu umferðarátaki. Nefndin er komin vel á veg og vænti ég tillagna hennar innan skamms.