Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:53:01 (2135)

2000-11-22 13:53:01# 126. lþ. 30.1 fundur 84. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég þakka umræðuna um þessi mál og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Auðvitað eru umferðaröryggismálin sem varða okkur öll mjög mikilvæg. Hæstv. ráðherra talaði um að það hefði verið ráðið í þrjár nýjar stöður, ný störf. Nú hef ég upplýsingar um að þeir sem hafa verið ráðnir í þessi störf komi frá öðrum lögregluembættum og ég spyr því hæstv. ráðherra: Voru þá ráðnir aðrir í þeirra stað þannig að þetta sé viðbót?

Einnig legg ég ríka áherslu á að vegaeftirlitsbílarnir, sem eru þarna í hlutverki nánast löggæslu, verði allir merktir. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að búið er að merkja einn þeirra. Þrír eru ekki merktir. Það er mikilvægt, bæði fyrir öryggi þeirra sem eru á ferðinni og einnig í eftirlitsskyni, að þeir séu merktir lögreglunni.

Ég vil einnig vekja athygli á því sem er vert að nefndin skoði og sem kom hér til umræðu og það er að á sama tíma og lögreglan á Blönduósi er með 1.600 kærur eru aðrir eftirlitsaðilar aðeins með þriðjung af þeim kærufjölda vegna umferðarbrota. Þetta tel ég vera fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra skoði og sú nefnd sem hann er með í þessari vinnu.

Ég vil einnig geta þess, herra forseti, að það er verulegt áhyggjuefni eins og kemur fram í bréfi frá Landssambandi lögreglumanna að verið er að skera niður fé til umferðaröryggismála. Um leið og menn eru með háleit markmið um fækkun slysa og eru með kynningar á blaðamannafundi um að setja sér háleit markmið og fara í vinnu til að auka umferðaröryggi er samkvæmt fjárlögum verið að draga úr fjármagni til að sinna þessum störfum. Þar finnast mér ekki fara saman orð og efndir þannig að það er verulegt áhyggjuefni, herra forseti.