Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:55:17 (2136)

2000-11-22 13:55:17# 126. lþ. 30.1 fundur 84. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir athugasemdir þeirra áðan. Ég tel að mjög margar þarfar ábendingar hafi komið fram og ég er sannfærð um að formaður allshn., sem er jafnframt formaður þessa starfshóps, mun taka það til sérstakrar skoðunar í þeim starfshópi sem er að fara núna yfir umferðaröryggismálin.

Það er alveg ljóst að það þarf að skoða ákveðna þætti eins og lausagöngu búfjár. Það er góð ábending sem kom fram frá hv. þm. Gísla S. Einarssyni um ökupróf á netinu. Sannarlega er ástæða til þess að við fullorðna fólkið skoðum líka hæfni okkar í þessum málum. Varðandi auglýsingar vil ég rifja upp að ég fór í átak í sumar sem var beint sérstaklega að ungum ökumönnum, fræðslu- og auglýsingaherferð, og ég vænti þess að hún hafi gefið góða raun. Þar naut ég aðstoðar og framlaga frá fyrirtækjum á einkamarkaði sem lögðu til fjármagn í það átak og það held ég að hafi verið hið besta mál.

Ég gerði í fyrri ræðu minni grein fyrir þeim ágætu breytingum sem væri verið að gera á samstarfi lögreglu og Vegagerðarinnar um umferðareftirlit. Það mun þýða að fjórar nýjar bifreiðar fara um þjóðvegina og fylgjast með bifreiðum og hafa tækjabúnað til þess að mæla hraða. Vegagerðin sér um þennan þátt málsins og vinnur samkvæmt áætlun þannig að ég á von á því að þær verði allar komnar í þetta eftirlit innan skamms.

Þáttur umferðardeildar ríkislögreglustjóra í þjóðvegaeftirliti hefur aukist verulega að undanförnu. Á þessu ári eru skráð mál alls orðin 1.766 og er þar að mestu leyti um að ræða hraðakstursbrot. Á fjárlögum er gert ráð fyrir auknu fjárframlagi til umferðardeildarinnar sem þýðir enn öflugra umferðareftirlit.

Hins vegar er rétt að þau vandamál sem blasa við í umferðinni krefjast þess að við gerum enn betur og mun ég vinna markvisst að því.