Lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:09:46 (2142)

2000-11-22 14:09:46# 126. lþ. 30.3 fundur 247. mál: #A lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Möller hefur lagt fyrir mig fsp. í tveimur liðum. Sá fyrri er svohljóðandi:

,,Hvernig verður staðið við fyrirheit um áframhaldandi lækkun húshitunarkostnaðar árið 2001, sbr. 12. tölul. í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999?``

Svarið er eftirfarandi:

Í ályktun Alþingis í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 segir í 12. tölul.:

,,Áfram verði unnið að því að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis. Verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs.``

Frá árinu 1998 hafa fjárveitingar til niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar aukist úr 480 millj. kr. í 760 millj. kr. á þessu ári. Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 790 millj. kr. verði varið til niðurgreiðslna á rafhitun íbúðarhúsnæðis. Er því um að ræða 30 millj. kr. hækkun á þessu ári eða tæplega 4%. Þá má geta þess að Landsvirkjun og dreifiveitur veita afslátt vegna rafhitunar. Afsláttur Landsvirkjunar nemur um 100 millj. kr. á ári en afsláttur dreifiveitna um 20 millj. kr. Með aukningu á niðurgreiðslum á þessu ári er svo komið að raunverulegur kostnaður notenda rafhitunar er innan við 50% af gjaldskrá Rariks. Í skýrslu sem Fjarhitun vann fyrir Byggðastofnun í tengslum við undirbúning byggðaáætlunar var áætlað að niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar þyrftu að nema um 870 millj. kr. á ári til að kostnaður við rafhitun yrði í samræmi við meðaldýrar hitaveitur.

Eins og nánar verður vikið að í svari við síðari spurningunni valda auknar niðurgreiðslur til rafhitunar því að samkeppnisskilyrði hitaveitna versna.

Reglur um niðurgreiðslur á rafmagni til húshitunar eru að stofni til frá árinu 1986. Frá þeim tíma hefur hlutur niðurgreiðslna aukist verulega jafnframt því sem orkufyrirtækin veita nú afslátt á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis. Orkufyrirtækin telja að reglurnar séu ekki nógu skýrar og takmarki möguleika þeirra til að draga úr kostnaði við rekstur og aðlaga gjaldskrá að breyttum aðstæðum.

Þá tel ég nauðsynlegt að setja reglur um eftirlit með niðurgreiðslum. Sl. vor skipaði ég nefnd til að endurskoða reglurnar frá 1986 og vænti ég þess að nefndin ljúki störfum á þessum vetri.

Önnur spurning er svohljóðandi:

,,Eru uppi áform um að notendur dýrra hitaveitna njóti niðurgreiðslna til samræmis við notendur rafhitunar?``

Eftir að niðurgreiðslur til rafhitunar aukast versna samkeppnisskilyrði dýrra hitaveitna að sama skapi. Nú er svo komið að kostnaður við húshitun á dreifiveitusvæði fjögurra hitaveitna er hærri en niðurgreidd rafhitun. Til að jafna þennan mun þyrfti að verja tæplega 50 millj. kr. til niðurgreiðslu hjá þessum veitum. Verði niðurgreiðslur á rafhitun auknar frá því sem nú er eykst þessi munur enn. Ég hef látið kanna hvaða áhrif það hefði að auka niðurgreiðslur til rafhitunar í 870 millj. kr. eins og gengið var út frá í skýrslu Fjarhitunar á sínum tíma. Niðurstaðan er sú að þá verði gjaldskrá fimm hitaveitna dýrari en rafhitun og samtals þyrfti rúmar 100 millj. kr. til að jafna þann mun ef eingöngu er miðað við íbúðarhúsnæði.

Á vegum ráðuneytisins er verið að yfirfara áhrif aukinna niðurgreiðslna til rafhitunar íbúðarhúsnæðis á samkeppnisstöðu hitaveitna. Niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir á næstunni. Ég tel óskynsamlegt að gera tillögu um að auka niðurgreiðslur til rafhitunar fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir.