Fyrirtæki í útgerð

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:24:16 (2148)

2000-11-22 14:24:16# 126. lþ. 30.4 fundur 138. mál: #A fyrirtæki í útgerð# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:24]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar. Þetta eru samviskuspurningar og ég skal reyna að svara þeim af fyllstu hreinskilni eins og vera ber.

Ég tel að best fari á því að fjölbreytni ríki í stærð fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi. Það er hins vegar erfitt að segja fyrir um það hvernig hlutirnir eigi að vera, þ.e. hversu mörg stór fyrirtæki, hversu mörg lítil og hversu mörg millistór fyrirtæki.

Ég tel einnig að markaðurinn sé það tæki sem getur hjálpað okkur að ákvarða hluti eins og þessa og því sé best að þróunin leiði í ljós á hverjum og einum tíma hvaða samsetning á stærðum fyrirtækja sé heppilegust. Ég tel nauðsynlegt að um fjölbreytni sé að ræða og vil þá vitna til ónefnds forstjóra í stóru útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem sagði að ekkert útgerðarform stæðist hugmyndaríkum og duglegum einyrkja snúning.

Varðandi síðari spurninguna má segja að stærstur hluti þess vanda sem þar er verið að fjalla um hafi komið til vegna samninga sjómanna og útgerða og deilunnar um það úr hvaða verði eigi að skipta, deilunnar um þátttöku sjómanna í kvótakaupum sem að sjálfsögðu er ólögleg. Þess vegna er mjög erfitt fyrir yfirvöld að koma að þessu. Þau hafa í gegnum tíðina gert það, a.m.k. í þrígang á þessum áratug, og enn er málið óleyst. Það er hins vegar ekki svo að útgerðir hafi sjálfdæmi um það úr hverju þær skipta þegar þær greiða sjómönnum sínum laun þegar um er að ræða fyrirtæki bæði með veiðar og vinnslu því að þegar viðskipti eiga sér stað milli skyldra aðila, er skylt að gera áhafnasamninga og það er síðan Verðlagsstofa skiptaverðs sem hefur eftirlit með þeim samningum og skráir þá og fylgist með því að þeir séu gerðir og ber þá síðan saman. Síðan geta slíkir samningar, ef þeir eru taldir óeðlilegir, komið til kasta úrskurðarnefndar og hafa í gegnum tíðina gert það þó að það séu kannski ekki mjög mörg dæmi um það.

Varðandi það sem hv. þm. nefndi um þróun mála minni og millistórra útgerða í Vestmannaeyjum á sex mánaða tímabili, þá fór þetta auðvitað ekkert fram hjá þeim sem með þessum málum fylgjast. En ég held að ekki sé rétt að draga þá ályktun að þetta hafi einungis verið að gerast vegna þeirrar stöðu sem hann er sérstaklega að fjalla um í sínum fyrirspurnum heldur komi þar einnig til óvissan sem ríkti á þessu tímabili vegna Vatneyrardómsins, fyrri dómsins, þ.e. héraðsdómsins og þeirrar óvissu sem ríkti þar til Hæstiréttur fjallaði um málið og felldi sinn dóm sl. vor. Fleira blandast því inn í þetta. Þetta eru mál sem er mikið fjallað um og hefur verið mikið fjallað um í þó nokkur ár og hefur verið erfitt að leysa. Það sem stjórnvöld hafa gert hingað til hefur ekki leyst vandann. Við munum líklega standa frammi fyrir þessum vanda á þessu þingi. Það fer út af fyrir sig eftir því hvernig kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna vindur fram. Þetta er erfitt mál og menn þurfa að fara mjög varlega í að grípa inn í mál sem þessi.