Fyrirtæki í útgerð

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:31:27 (2151)

2000-11-22 14:31:27# 126. lþ. 30.4 fundur 138. mál: #A fyrirtæki í útgerð# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. þau svör sem hann gaf við fyrirspurn minni og eins og hann orðaði það sjálfur voru þetta samviskuspurningar og hann nálgaðist kannski svarið út frá því.

Hæstv. ráðherra sagði í fyrsta lagi að hann vildi að um fjölbreytni væri að ræða í sjávarútvegi og get ég vissulega tekið undir það. Hæstv. ráðherra sagði einnig að markaðurinn væri tæki til að ákveða hverjir lifðu og hverjir ekki. Ekki ætla ég að gera ágreining um það, en hins vegar er ég að benda á það í fyrirspurn minni að til þess að markaðurinn geti ráðið verður að vera jafnræði milli þeirra sem takast á. Ég er að benda á að ekki er jafnræði milli þeirra sem stunda bæði veiðar og vinnslu og hinna sem ekki gera það og að sama skapi þeirra sem aðeins stunda vinnslu en ekki stunda útgerð. Þetta er í raun og veru það meginóréttlæti sem ég er að draga fram í fyrirspurn minni.

Hæstv. ráðherra nefndi einmitt áhafnasamninga og það er alveg rétt að þeir sem stunda bæði veiðar og vinnslu hafa gert áhafnasamninga um það verð sem ég vitnaði til áðan, þ.e. 60--80 kr., og ekki hafa verið gerðar athugasemdir við það. Hins vegar eru aðrir áhafnasamningar sem hafa verið gerðir þar sem uppgjörið hefur verið kannski 110--150 kr. Einnig hefur verið staðfest að menn hafa verið látnir taka þátt í kvótakaupum, það hefur ekki gengið upp, en það hefur einfaldlega verið uppi á borðinu að menn hafa tekið þátt í kvótakaupum. Hitt eru vitaskuld óbein kvótakaup og ekkert annað og því verð ég að segja það, virðulegi forseti, að ég hvet hæstv. ráðherra til þess að taka á þessum málum af meiri festu og ég trúi því að hann geri það.