Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:35:56 (2153)

2000-11-22 14:35:56# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:35]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eins og alþjóð veit hefur útlendingum á Íslandi fjölgað mjög á undanförnum árum, bæði vegna þess að Íslendingar hafa tekið við nokkrum hópi flóttamanna en einnig og ekki síður vegna þess að hingað til lands hefur fjöldi fólks komið til að sækja sér atvinnu og nú er svo komið að stórir hópar innflytjenda sinna ýmsum mikilvægum störfum hér á landi, ekki síst við ýmiss konar þjónustustörf.

Í nágrannalöndum okkar hefur reynslan sýnt áþreifanlega hversu mikilvægt er að málefnum innflytjenda sé sinnt af natni í hverju samfélagi því ella er mikil hætta á að hinir nýju íbúar einangrist og eigi þess aldrei kost að aðlagast því samfélagi sem þeir eru að setjast að í.

Eitt af því sem menn eru sammála um er mikilvægi þess að innflytjendur fái tækifæri til að læra mál síns nýja heimalands. Þetta á auðvitað við bæði börn og fullorðna í fjölskyldum innflytjenda. Nú er talið að um 75 erlend tungumál séu töluð hér á landi sem móðurmál útlendinga sem hér eru búsettir. Á leikskólastigi eiga börn sem hér hafa annað tungumál en íslensku engan rétt á sérstakri íslenskukennslu og því síður á kennslu í sínu eigin móðurmáli. Á grunnskólastigi á að vera afmarkaður stundafjöldi, tvær stundir á viku, til ráðstöfunar til íslenskukennslu. Raunin er sú svo dæmi sé tekið að samkvæmt upplýsingum frá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur má ætla að börn innflytjenda í grunnskólum Reykjavíkur fái sem nemur tæplega 10 mínútna kennslu á viku í íslensku. Á framhaldsskólastigi hafa úrræði verið fá og ungir innflytjendur enda líka skilað sér seint inn í framhaldsskólann eða flosnað upp úr námi.

Nýjar upplýsingar liggja fyrir um að um 7% nemenda í 9. og 10. bekk tala annað tungumál en íslensku heima hjá sér og a.m.k. 1.600 tvítyngdir nemendur í grunnskólum þurfa sérstaka aðstoð við nám sitt í skólanum. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um heildarfjölda nemenda fæddra á Íslandi sem fá máltöku á öðru máli en íslensku, fjölda foreldra sem ekki hafa tök á að aðstoða börn sín við nám eða fjölda íslenskra nemenda sem dvalið hafa lengi erlendis og tala annað mál en íslensku heima.

Fullorðnir útlendingar á Íslandi njóta miklu minni réttinda varðandi íslenskukennslu en útlendingar í hinum ríkjum Norðurlandanna svo dæmi sé tekið. Ekki verður annað sagt en að íslenskir kennarar séu illa undir það búnir að taka við fjölda útlendinga inn í skóla. Í öllum nágrannalöndum okkar er kennsla útlendinga sérstakur liður í kennaranámi, en svo hefur ekki verið t.d. í Kennaraháskóla Íslands þar sem nánast allir grunnskólakennarar hljóta menntun sína.

Símenntunarstofnun Kennaraháskólans hefur boðið upp á námskeið í íslensku nýbúainnflytjenda, en samkvæmt nýjum upplýsingum þaðan hafa samtals 72 kennarar lokið námskeiðum sem tengjasat kennslu útlendinga á vegum stofnunarinnar sl. fimm ár. Það má því ætla að íslenskir kennarar séu síður en svo vel undir það búnir að takast á við vaxandi fjölda nemenda með annað móðurmál en íslensku í skólana. Þess vegna eru eftirfarandi spurningar lagðar fyrir menntmrh.:

,,1. Hvað hefur menntamálaráðuneytið gert og hvað er á döfinni til að tryggja að innflytjendur, bæði fullorðnir og börn, fái lögbundna kennslu í íslensku?

2. Á hvern hátt eru kennarar búnir undir að mennta börn og unglinga sem hafa annað móðurmál en íslensku?``