Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:44:25 (2155)

2000-11-22 14:44:25# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hreyfði mjög mikilvægu máli sem snýr að kennslu innflytjenda. Ég tek undir með menntmrh. að taka þarf á þessu máli með mun heildstæðari hætti en einangra það við menntunarmálin. Öllum er ljóst að mikilvægt er að standa vel að móttöku þeirra sem hafa annað tungumál og flytjast til landsins og við viljum að aðlagist íslensku samfélagi. Það sem við þurfum að leggja áherslu á er í fyrsta lagi að kenna þeim íslensku því að íslenska tungumálið er lykillinn að íslensku samfélagi. Við þurfum að kenna þeim grundvallarreglur samfélagsins til þess þeir geti aðlagast íslensku samfélagi og við þurfum að tryggja þeim þann rétt að þeir geti viðhaldið eigin tungumáli og eigin menningu. Við þurfum að auka þekkingu Íslendinga á þessu málum. Við stöndum núna frammi fyrir nýjum aðstæðum með auknum fjölda innflytjenda. Við sjáum t.d. að á síðustu þremur árum hefur sá fjöldi nemenda sem er í grunnskólum Reykjavíkurborgar þrefaldast. Við sjáum því alveg fram á nýja tíma í þessu.