Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:45:41 (2156)

2000-11-22 14:45:41# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Vissulega er mikilvægt að íslenskukennsla í skólum sé nægjanleg fyrir þá sem hafa íslensku sem annað tungumál. Hins vegar er það rétt sem hér hefur komið fram, að þetta mál þarf að ræða í stærra samhengi. Við erum að tala um aðlögun mjög stórs hóps að íslensku samfélagi. Það varðar ekki bara íslenskukennslu, herra forseti. Við viljum líka að þetta fólk fái alla þá þjónustu sem þarf og leiðbeiningar til þess að geta tekist á við íslenskt samfélag.

Ég vil einnig vekja athygli á mikilvægi þess að þessir nemendur fái móðurmálskennslu. Það er ekki bara mikilvægt að þeir fái íslenskukennslu heldur er mikilvægt fyrir þroska þeirra að þeir fái móðurmálskennslu. Ég hygg að víða sé það ekki minni vandi og jafnvel heldur meiri en að útvega nægjanlega íslenskukennslu. Öllum er ljóst að í mörgum tilfellum eru þessar tvær stundir því miður allt of lítið.