Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:46:50 (2157)

2000-11-22 14:46:50# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka umræðurnar og svör hæstv. menntmrh. Að sjálfsögðu ber að þakka það sem vel er gert á þessu sviði, styrkveitingar til námskeiðahalds og annað sem fram kom í máli hæstv. ráðherra. Hins vegar er ljóst að hér eru miklar og alvarlegar brotalamir.

Ég tek undir það með hæstv. menntmrh. að þörf er á heildstæðri stefnumótun í þessum efnum. Til er þó stefna varðandi ýmsa þá þætti sem hér hefur verið vikið að og reyndar kom það fram í máli mínu og hjá hæstv. ráðherra. Þannig er kveðið á um það í lögum, öllu heldur reglugerð með lögum, að hver nemandi með annað móðurmál en íslensku skuli fá tvær stundir á viku í sérstakri íslenskukennslu á meðan hann er að ná tökum á íslensku máli. Þessum reglum er ekki framfylgt. Ég vitnaði í upplýsingar frá Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur um að í grunnskólum Reykjavíkur megi ætla að börn innflytjenda fái sem nemur tæplega 10 mínútna kennslu á viku í íslensku. Reglunum er því ekki framfylgt. Þar sem stefna hefur verið mótuð er henni ekki framfylgt, ekki farið að reglum. Ég gæti trúað að hæstv. ráðherra mundi vísa til borgaryfirvalda en hlýtur það ekki að vera stefna menntmrn. og hæstv. menntmrh. að sjá til að þessari stefnu sé framfylgt?

Einnig kemur fram að Kennaraháskólinn, sem starfar á vegum og ábyrgð ríkisins, undirbýr kennara ekki til að takast á við þetta verkefni. Það eru haldin námskeið á vegum Símenntunarstofnunar Kennaraháskólans og hefur komið fram að 72 kennarar hafa sótt námskeið af þessu tagi en gagnvart almennum kennurum eða kennurum sem eru að öðlast starfsréttindi er ekki nægur undirbúningur á þessu sviði.