Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 14:49:06 (2158)

2000-11-22 14:49:06# 126. lþ. 30.5 fundur 211. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til menntmrh.) fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Spurt var um hvað menntmrn. hefði gert og hvað væri á döfinni hjá því til þess að sinna þessu máli. Ég lýsti því. Ég fjallaði ekki um hvernig staðið er að þessum verkefnum innan ákveðinna sveitarfélaga eins og hv. þm. ræddi um.

Varðandi menntmrn. hins vegar og skóla á þess vegum, framhaldsskólana, höfum við lagt á ráðin um það í Iðnskólanum í Reykjavík, og þar er áhugi á því, að skipuleggja tveggja ára ára nám á framhaldsskólastigi fyrir fólk af erlendum uppruna sem vill tileinka sér íslensku. Við áttum okkur á því, í þeim skólum sem menntmrn. stendur að, að gera þarf frekara átak á þessu sviði.

Ég held einnig að á vegum Reykjavíkurborgar fari fram mikið starf sem miðar að því að taka vel á móti þessum nýjum borgarbúum. Það á jafnt við skóla sem aðra þætti í borgarstarfseminni. Ég er einnig þeirrar skoðunar og veit að innan Kennaraháskóla Íslands fer náttúrlega fram þróun og skipulag í samræmi við nýjar námskrár og kröfur sem gerðar eru í nýjum námskrám. Skólinn hefur eins og aðrir tíma til þess að laga sig að þessum breyttum kröfum. Hann mun vafalaust gera það líka með að fræða kennaranema um hvernig þeir eigi að bregðast við í íslenskukennslu á þessu sviði.