Framleiðsla og sala áburðar

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:06:04 (2166)

2000-11-22 15:06:04# 126. lþ. 30.7 fundur 218. mál: #A framleiðsla og sala áburðar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil taka upp orð hæstv. ráðherra þegar hann sagði: Frelsið er komið, kannski leyndardómsfyllra en áður var. Það á bæði við um verðlagninguna sem er frjáls og það hlýtur líka að varða innflutninginn, þ.e. innihald ákveðinna efna eins og kadmíums. Það hlýtur að vera mjög mikilvægt að allt eftirlit í þessu frjálsræði sé virkt og hert frá því sem verið hefur og að hér sé sem mest notuð innlend framleiðsla, innlendur áburður því að hann hefur reynst með mjög lágt kadmíumgildi og í raun og veru verið með eins hreina framleiðslu og hægt er. Það er mikilvægt í þeirri landbúnaðarframleiðslu sem við viljum stefna að.