Framleiðsla og sala áburðar

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:09:42 (2168)

2000-11-22 15:09:42# 126. lþ. 30.7 fundur 218. mál: #A framleiðsla og sala áburðar# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég minni hv. fyrirspyrjanda og þingmann á að hann var einn af þeim sem greiddu EES-samningunum atkvæði sitt á þingi sem leiddu inn það frelsi að Áburðarverksmiðjan var ekki á eylandi lengur, leiddi það líka af sér að íslenskir bændur voru ekki á eylandi. Til þess að lifa og halda stöðu sinni í samkeppni þjóðanna verða þeir að leita allra leiða. Fyrir liggur að ég vildi setja reglugerð og trúi að ég muni gera það um að hér verði aðeins leyfður áburður með 10 mg kadmíums í kg af fosfór, en Evrópusambandið segir að ef samningarnir takmarki það ... (Gripið fram í.) Við breytum ekki Evrópusambandinu svo glatt, en það er verið að skoða það. Síðan er auðvitað hitt, að við þurfum að halda þessari stöðu. Reglurnar hjá Evrópusambandinu eru þær að mörkin eru við 50 mg kadmíums í kg fosfórs, við erum að tala um 10 mg, þannig að við verðum að fylgja því.

Áburðarverksmiðjan er sem betur fer með mjög góðan áburð og hefur átt viðskipti við mjög góða birgja erlendis og er að flytja inn góðan áburð og búa til góðan áburð. Hún er sem betur fer stærsti viðskiptaaðili íslenskra bænda með yfir 70%. Samkeppnin er komin. Hún er af því góða og hún er trú hv. þm. Og íslenskir bændur eru að berjast fyrir markaðsmálum sínum.

Ég vil taka undir ágæt orð þeirra þingmanna sem komu inn í umræðuna. Við þurfum að hugsa um sérstöðu okkar. Íslenskir bændur eiga möguleika miðað við það sem er að gerast í Evrópu og víðar til að sækja fram og við þurfum að leggja áherslu á að misbjóða hvorki íslenskri náttúru, búfé né fólkinu okkar og vera hér með bestu afurðir sem við getum selt á góðu verði. Við eigum mikla möguleika ef við stöndum saman.