Sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:25:06 (2174)

2000-11-22 15:25:06# 126. lþ. 30.9 fundur 249. mál: #A sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Fsp. mín er eiginlega framhald af fsp. þeirri er var til umræðu á undan.

Nú liggur fyrir úrskurður frá hæstv. umhvrh. um að ekki þurfi að fara fram umhverfismat til undirbúnings rekstri kvíaeldis laxfiska í Mjóafirði. Við umfjöllun um málið kom fram að hæstv. landbrh. hefur sett á stofn starfshóp sem hefur það verkefni að skoða hvaða reglur eigi að gilda frá hinu opinbera um sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru. Í skipunarbréfinu er eingöngu kveðið á um að hópurinn eigi að huga að lagalegri umgjörð og mögulegri staðsetningu slíks kvíaeldis. Því er full ástæða til að gert verði kunnugt hver stefna hæstv. ráðherra er í þessu máli og hvaða markmiðum hæstv. ráðherra ætlar sér að ná með því starfi sem hann hefur þarna hrundið af stað.

Í tilefni af þessu hef ég ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur lagt fram fimm spurningar til hæstv. ráðherra:

1. Hefur starfssvið starfshóps um sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru verið skilgreint og verkefni hans ákveðið?

Hér er auðvitað átt við það hve víðtækt verkefnið er og hvaða sjónarmið hæstv. ráðherra hefur að leiðarljósi. Eru þau í samræmi við þau varúðarsjónarmið sem hæstv. ráðherra hefur haft að leiðarljósi varðandi erfðablöndun og sjúkdómavarnir, t.d. vegna innflutnings á fósturvísum úr norskum kúm?

2. Ef búið er að skilgreina hver séu helstu verkefni starfshópsins, hvaða rannsóknir og athuganir þurfa þá að fara fram? Á hópurinn t.d. að skila tillögum um rannsóknar\-áætlun sem verði undanfari að reglugerð um þetta efni eða jafnvel tillögu um breytingar á lögum?

3. Mun hópurinn leita álits erlendra sérfræðinga um sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru? Er það ekki öruggt að við látum okkur reynslu annarra að kenningu verða og siglum þar með fram hjá þeim vandræðum sem kvíaeldi hefur skapað annars staðar?

4. Hvenær er áætlað að starfshópurinn skili niðurstöðum til ráðherra? Hvað tekur þetta allt saman langan tíma? Verða niðurstöðurnar í áföngum? Hvaða niðurstöður er mikilvægast að komi fyrst og hvenær þurfa þær að liggja fyrir?

5. Telur ráðherra að nota megi niðurstöður hópsins sem grunn að reglum um fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði?

Úrskurður hæstv. umhvrh. um að ekki þurfi umhverfismat fyrir 8 þús. tonna kvíaeldi á laxi í Mjóafirði vekur upp spurningar um hvort reglur sem síðar verða settar geti takmarkað það leyfi. Hver er skoðun ráðherrans á þessu? Það er ljóst að ef um verður að ræða einhvers konar rannsóknir sem varða lífríki og erfðablöndun alifiska við villta stofna, og þó ekki væri nema söfnun gagna um rannsóknir sem til eru erlendis um þetta efni, tekur það og úrvinnsla efnisins töluverðan tíma. Mun slíkt ferli verða til þess að eldið í Mjóafirði hlíti öðrum reglum en settar verða að loknu starfi hópsins eða verður eldisfyrirtækið í Mjóafirði að bíða eftir þeim reglum sem settar verða þó að áætlanir þess um að hefja rekstur raskist þar með?