Sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:28:31 (2175)

2000-11-22 15:28:31# 126. lþ. 30.9 fundur 249. mál: #A sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því strax yfir að ég tel það nokkuð víst að ef af verður þurfi að gera lögin skýrari og setja reglugerðir í þessum efnum. Það er alveg ljóst í mínum huga að mikil vinna þarf að eiga sér stað sem menn þurfa að ná utan um til þess að forða slys eða ósátt um svona stórmál.

Hv. þm. spyr: ,,Hefur starfssvið starfshóps um sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru verið skilgreint og verkefni hans ákveðið?``

Eins og ég sagði áður skipaði ég hinn 23. ágúst starfshóp til að fara yfir þætti sem snerta sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru og hafa helstu verkefni starfshópsins verið skilgreind. Hópurinn skal einnig kanna lagalega umgjörð fiskeldis og mögulega staðsetningu fiskeldis í kvíum. Ég ætlast til þess að hópurinn skili mér áliti um hvar hann treystir sér til, ef hann gerir það, að mæla með að kvíaeldi fari fram.

Í öðru lagi: ,,Ef svo er, hver eru helstu verkefni starfshópsins?``

Nefndin mun m.a. gera tillögur um reglur sem ætti að viðhafa við úthlutun leyfa til sjókvíaeldis. Starfshópurinn mun láta vinna drög að rannsóknaráætlun um vöktun og eftirlit við kvíar og athuganir á villtum stofnum í ám og sjó. Hópurinn hefur fengið erfða- og kynbótafræðinga til að fjalla sérstaklega um þætti er varða hættu á erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa. Í starfshópnum á sæti sérfræðingur á sviði fisksjúkdómamála sem mun gera sérstaklega grein fyrir fisksjúkdómahættunni. Einnig er hópnum gert að gera grein fyrir lagaumhverfi fiskeldis hér á landi og úrbótum í þeim efnum ef þurfa þykir, eins og ég sagði áður. Hópurinn hefur, eins og áður sagði, ekki lokið störfum.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Mun hópurinn leita álits erlendra sérfræðinga um sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru?``

Ég get sagt hér, hæstv. forseti, að mér er ekki kunnugt um að hópurinn hafi leitað til erlendra sérfræðinga, en ég tel það alveg víst. Ég bendi á að þeir sem sitja í hópnum eru flestir menntaðir erlendis og hafa starfað erlendis á sviði fiskeldis og villtrar náttúru um árabil og eru í miklum alþjóðlegum samskiptum og sækja ráðstefnur um þessi mál þannig að ég er í engum vafa um það. Ég tel að ég hafi ekki þurft að gefa þeim einu sinni tilskipun um slíkt þannig að ég á ekki von á öðru.

Hv. þm. spyr: ,,Hvenær er áætlað að starfshópurinn skili niðurstöðum til ráðherra?``

Gert er ráð fyrir að á næstu vikum liggi fyrir áfangaskýrsla vegna starfa nefndarinnar.

Í fimmta lagi spyr hv. þm.: ,,Telur ráðherra að nota megi niðurstöður hópsins sem grunn að reglum um fyrirhugað sjókvíaeldi í Mjóafirði?``

Til þess er ætlast að vinna hópsins geti orðið almennur grunnur að reglum er varða fiskeldi hér við land, hvort sem það verður í Mjóafirði eða einhvers staðar annars staðar. Þetta snýr því að því verksviði sem landbrn. hefur hvað þessi mál varðar, þ.e. að leggja framtíðargrunn að því hvernig að þessu skuli staðið á sem flestum sviðum í þessari atvinnustarfsemi.