Sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:33:48 (2177)

2000-11-22 15:33:48# 126. lþ. 30.9 fundur 249. mál: #A sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JÁ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:33]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég skil þau þannig að þarna sé tekið nokkuð fast utan um það sem er fram undan og að reglur eigi að vera samsvarandi fyrir alla sem munu koma að kvíaeldi í framhaldinu af þessu, að upp úr þessu verði til reglur sem geri það kleift að meta þá staði þar sem mögulegt er að stunda slíkt eldi og að farið verði með fyllstu gát hvað varðar í fyrsta lagi erfðamengun og líka mengun af öðru tagi.

Ég býst við að menn séu nokkuð ákafir hvað varðar tímamörk í þessum efnum. Mér hefur a.m.k. sýnst það á því hvernig þetta mál hefur borið að og hve menn telja sig þurfa að vinna hvað varðar fyrsta áfanga málsins. Það er út af fyrir sig merkilegt að það skuli liggja fyrir strax að ekki þurfi að fara fram umhverfismat á eldisstöð sem þessari upp á 8 þús. tonn. Það er engin smáframleiðsla. Það er í sjálfu sér ástæða til að setja svolítið af spurningarmerkjum við það hvernig menn ná síðan utan um slíkt leyfi með reglum sem komi í veg fyrir að það geti orðið af þessu einhvers konar mengunarslys. Ég held að þess vegna sé mikið í húfi að bæði verði hratt unnið hvað þessi mál varðar og líka að menn vandi sig og ég heyri að hæstv. ráðherra ætlar sér að leiða málin áfram af festu.