Sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:36:00 (2178)

2000-11-22 15:36:00# 126. lþ. 30.9 fundur 249. mál: #A sambýli kvíaeldis og villtrar náttúru# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda málefnalega ræðu og ég vona að það verði mitt hlutverk þar sem ég kem að þessum málum og mitt ráðuneyti að taka á því af festu og með fyllstu gát. Ég tel þetta mjög vandmeðfarið mál og vera kann að færustu vísindamenn séu sammála hv. þm. um að stórt kvíaeldi, 8 þús. tonn, sé eitthvað sem við eigum ekki að hugsa um heldur smærri einingar, bara af öryggisástæðum, ef við förum út í þessa atvinnustarfsemi af fullum þunga.

Ég vil segja um þetta flókna mál að ég verð var við það sem hv. þingmenn hafa nefnt, að þrýstingurinn er mikill og menn sjá þetta sem tækifæri hér eins og í Noregi, Skotlandi, Færeyjum og víðar. En menn mega ekki vera svo bráðlátir að við getum ekki sett ströng lög og reglur þannig að við lendum ekki í fiskeldisævintýri eins og var fyrir um það bil einum og hálfum áratug.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Kristjáni Pálssyni að ég gat um það í minni ræðu að ég vona að út úr starfi nefndarinnar komi góð skýrsla sem geti snúið að heildarstefnu og að því að setja strangari lög og reglugerðir til þess að starfsleyfin, ef þau verða gefin út, verði grundvöllur að sáttmála þannig að ekki þurfi að vera deilur og hin villta íslenska náttúra búi við öryggi og virðingu áfram.