Skógræktarverkefni á Austurlandi

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 15:46:21 (2181)

2000-11-22 15:46:21# 126. lþ. 30.10 fundur 277. mál: #A skógræktarverkefni á Austurlandi# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[15:46]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka hv. landbrh. fyrir svör hans og get sagt það hér að því miður var ég ekki í þeirri miklu veislu sem hann tók þátt í og lýsti. Það var kannski allt fyrir utan sviga, en staðan er þessi: Þetta er eitt af mikilvægustu byggðaverkefnum sem hefur verið farið í og alveg ljóst að það er ekki bara ásýnd landsins sem hefur breyst heldur líka andleg líðan fólksins. Það er verið að vinna eitthvað til framtíðar auk þess er þetta mikilvæg viðbót við hefðbundinn landbúnað.

Varðandi það að óska eftir því að Héraðsskógar og Suðurlandsskógar sinni þessu nýja verkefni, Héraðsskógar á Austurlandi og Suðurlandsskógar í Austur-Skaftafellssýslu eftir breytta kjördæmaskipan, þá tel ég að það geti verið mjög góður kostur. Á þessum stöðum er komin mikil og dýrmæt reynsla sem auðvitað ber að nýta, en inni í dæmið vantar þá fjármagn og það þarf að tryggja. Ef þetta fer af stað verði fjármagn tryggt til verkefnisins og ekki bara í byrjun heldur að þeir sem taka þátt í þessum landshlutabundnu verkefnum geti treyst því að þær áætlanir sem lagt er upp með og unnið er eftir standi þá við afgreiðslu fjárlaga þannig að ekki brotni allt undan verkefninu þegar í framhaldið er komið.