Flóttamenn

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:12:23 (2189)

2000-11-27 15:12:23# 126. lþ. 32.1 fundur 139#B flóttamenn# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:12]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Fyrir nokkrum missirum var stjfrv. um útlendinga lagt fyrir Alþingi þar sem var að finna kafla um flóttamenn, þar með talda hælisleitandi flóttamenn. Þetta var sannarlega tímabært. Hins vegar brá svo við að gerðar voru alvarlegar athugasemdir við frv. af hálfu mannréttindasamtaka hérlendis sem bentu á að réttarstaða hælisleitenda væri ekki tryggð með frv. Þetta frv. varð heldur ekki að lögum. Þrátt fyrir eftirrekstur, m.a. af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar, aftur og aftur við hinar ýmsu umræður, bólar ekkert á nýju frv. þar sem tekið er á þessum brýnu mannréttindamálum. Hins vegar liggur fyrir þinginu frv. um breytingar á lögum um eftirlit með útlendingum og það snýst aðeins um eitt ákvæði sem með tilvísun til Dyflinnarsamningsins hnykkir á því að útlendingur eigi ekki rétt á hæli hér á landi ef krefja má annað ríki með aðild að samningnum til að taka við flóttamanninum.

Við uppfyllum ekki flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna um að kynna hælisbeiðanda réttindi við komu, að hann fái strax lögfræðing, að hann fái túlk, að hann fái ráðgjöf og réttaraðstoð. Tugir flóttamanna hafa leitað hælis á liðnum árum og það hefur komið fram í fyrirspurnum og svörum við þeim að þeim er alltaf snúið til baka. Einum var stungið inn eins og frægt er. Það er blettur á okkar þjóðarásýnd hvernig við tökum á flóttamönnum.

Hælisleitendur sem hingað koma, herra forseti, verða að uppfylla lög frá 1965 sem eru í gildi en fullkomlega úrelt. Þau gera kröfu um vegabréf, vegabréfsáritun, fyrir fram útvegað dvalarleyfi, fjölskyldutengsl, aðsetur á Íslandi, að þeir sjái um sig sjálfir og gildan farmiða til baka. Það er útilokað að sá sem leitar hælis geti uppfyllt þessi skilyrði og fólk á flótta er ekki með öll þessi persónuskilríki með sér.

Þess vegna spyr ég: Hvenær er von á frv. um útlendinga þar sem tekið er á þessum réttindamálum og heildarlöggjöf sett?