Flóttamenn

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:14:48 (2190)

2000-11-27 15:14:48# 126. lþ. 32.1 fundur 139#B flóttamenn# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að lögin frá 1965 eru komin nokkuð til ára sinna og þess vegna er unnið að því að leggja fram ítarlegt frv. um þetta málefni fljótlega. Það hefur tekið nokkurn tíma að vinna það mál. En það er ekki vegna þeirra alvarlegu athugasemda sem hafa komið fram í umsögn eins og hv. þm. hélt hér fram, heldur þurfti að endurskoða sérstaklega Schengen-ákvæði og setja þar inn í.

Varðandi frv. sem hv. þm. nefndi um Dyflinnarsamn\-ing\-inn þá eru það ákvæði sem tengjast Schengen-samkomulaginu og við erum að sjálfsögðu bundin af því samkomulagi eins og önnur aðildarríki. Það frv. tekur hins vegar ekki gildi fyrr en að því kemur að Ísland gerist formlega aðili að því samkomulagi í lok mars á næsta ári eins og til stendur.

Ég ítreka það að að sjálfsögðu fylgjum við á Íslandi alþjóðlegum skuldbindingum og skilyrði þess að einstaklingur fái hér hæli sem pólitískur flóttamaður er að hann eigi yfir höfði sér ofsóknir í heimalandi sínu. Því þarf að kanna sérstaklega hvort svo sé ástatt með hvern einstakling um sig. Mér finnst líka rétt að láta það koma hér fram vegna þess að nokkur umræða hefur orðið um þetta í fjölmiðlum um helgina, að þótt skilríkja útlendings sé getið í frávísunarúrskurði þá er úrskurðurinn ekki byggður á þeim skilríkjaskorti. Fyrst og fremst er um það að ræða að taka tillit til þess hvort hann eigi yfir höfði sér ofsóknir og hvort vernd hans sé skert með því að senda hann til baka, hvort sem það er til upprunalands hans eða þess lands sem hann kom frá.