Niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:20:49 (2195)

2000-11-27 15:20:49# 126. lþ. 32.1 fundur 140#B niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Jóhann Ársælsson:

Herra forseti. Flestar þjóðir heims viðurkenna siðferðilega skyldu og ábyrgð sína á mengun andrúmsloftsins. Nýjustu rannsóknir vísindamanna eru af flestum taldar sanna að hlýnun þess er hraðari og afleiðingarnar meiri en áður var talið. Ekki náðist niðurstaða á umhverfisráðstefnunni í Haag og ekki er vitað á þessari stundu hvert framhaldið verður.

Á ráðstefnunni tóku Íslendingar sér stöðu meðal þeirra þjóða sem mestri mengun valda í svonefndum regnhlífarhópi undir forustu Bandaríkja Norður-Ameríku. Tillögur íslenskra stjórnvalda hafa snúist um að við fáum að menga meira en við höfum gert vegna þess að við værum svo smáir að jafnvel ein stóriðjuverksmiðja raskaði allri stöðu okkar og ekki væri sanngjarnt að hafa sömu reglu fyrir okkur og stærri iðnframleiðsluríki. Einnig að nýting okkar á hreinum orkugjöfum minnki mengun af álframleiðslu í heiminum og að við mengum eins og er minna en aðrar þjóðir.

Í ljósi þessa spyr ég hæstv. umhvrh.: Er hætta á því að þjóðir heims telji sig nú óbundnar af niðurstöðum Kyoto-ráðstefnunnar og leyfi aukningu mengunar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum? Ætla íslensk stjórnvöld að haga stefnu sinni hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland geti uppfyllt þau almennu skilyrði sem ráðstafanir Kyoto-bókunarinnar gera ráð fyrir þó að ekki náist samkomulag um framseljanlegan mengunarkvóta?

Ef íslensk stjórnvöld leyfa stækkun álverksmiðju Norðuráls í Hvalfirði og/eða nýja verksmiðju á Reyðarfirði, verður þá gert að skilyrði í samningunum við rekstraraðila að þeir kaupi losunarkvóta verði sú leið opin og/eða kosti aðrar mótvægisaðgerðir?

Í ljósi fullyrðinga hæstv. ráðherra í ríkissjónvarpinu um að umhverfissamtök hafi á ráðstefnunni látið í ljós ánægju með íslensku tillöguna um undanþágu vegna stóriðjuverkefna spyr ég: Hvaða umhverfissamtök gerðu það?