Niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:27:58 (2199)

2000-11-27 15:27:58# 126. lþ. 32.1 fundur 140#B niðurstöður Haag-ráðstefnunnar um loftslagsbreytingar# (óundirbúin fsp.), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:27]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Menn féllu á tíma í Haag. Ég geri ráð fyrir að Íslendingar hafi átt þátt í að við féllum á tíma þar því að ágreiningurinn var greinilega uppi fyrst og fremst hjá þeim sem vildu ekki ganga það langt að hægt væri að ná árangri í að minnka mengun í heiminum. Mér finnst hæstv. ráðherra hins vegar sýna tækifærisstefnu með því að nefna til eitthvert umhverfisverndarfólk sem hún hafi talað við og hafi tekið undir tillögur okkar þegar enginn kannast við slíkt frá hendi slíkra samtaka. Þó að einhverjir einstaklingar tali við hæstv. ráðherra, þá er ekki rétt að halda því á lofti að það sé einhvers konar gæðastimpill á tillögur okkar. Auðvitað eiga menn að vinna að hugmyndum sínum og tillögum og reyna að ná fram samstöðu um þær og ekkert nema gott um það að segja, en það þýðir ekki að kalla til einhver vitni sem hafa raunverulega enga ábyrgð í málinu. Mér finnst að Íslendingar þurfi að passa upp á, og ég endurtek það, að hægt sé að ná saman með öðrum þjóðum um þær aðgerðir sem í verður farið í framtíðinni en þeir brenni ekki brýr að baki sér í þessum málum.