Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:30:31 (2201)

2000-11-27 15:30:31# 126. lþ. 32.1 fundur 141#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:30]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Fyrir nokkrum dögum flutti ég fyrirspurn til hæstv. landbrh. um fyrirhugaða tilraun á innflutningi á fósturvísum úr norskum kúm og hvort hann teldi ekki að ástæða til frestunar væri til staðar þar sem einstaklingur í Noregi hafði látist úr Creutzfeldt-Jakobs sjúkdóminum, en hæstv. ráðherra upplýsti að fram hefði komið að sá einstaklingur hefði ekki látist af smiti í gegnum nautgripi. En þó að eingöngu fáir dagar séu liðnir frá því að ég bar upp fyrirspurnina og að fram kom í svari ráðherra að hann væri ekki tilbúinn til að fresta tilrauninni, þá hafa fréttir núna um helgina verið þess eðlis að ég vil ítreka fyrirspurn mína, því að um alla Evrópu er að koma fram smit í búpeningi, í nautgripum, kúariða á svæðum þar sem talið var að væru algerlega laus við slíkt smit. Kúariða er mjög alvarlegur sjúkdómur og smitið er nú að eyðileggja allan kjötmarkaðinn í viðkomandi löndum þar sem sýkin er að koma upp. Tími frá smiti til sjúkdómsgreiningar í mönnum er langur og smitleiðir eru enn þá ekki ljósar að fullu.

Herra forseti. Miðað við þessar aðstæður og þær fréttir sem berast alls staðar að úr Evrópu vil ég enn og aftur spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að afturkalla leyfið eða fresta því a.m.k. þar til þetta fár er gengið yfir eða ljóst sé hvernig smitið berst á milli.