Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:32:51 (2202)

2000-11-27 15:32:51# 126. lþ. 32.1 fundur 141#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Staðan er sú sem ég lýsti hér á dögunum. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að kúariða hefur aldrei komið upp í Noregi. Í öðru lagi er ljóst að einstaklingurinn sem dó lést ekki úr því afbrigði sem tengist að kúariðu. Noregur er mjög frábært land í kröfugerð sinni og umgerð um landbúnaðinn og skýrsluhaldi, þar er allt í góðu horfi.

Þessi tilraun yrði auðvitað stöðvuð ef eitthvað gerðist og kæmi upp sem ógnaði stöðu okkar. Ég hef margfarið yfir það að fósturvísar bera ekki með sér sjúkdóma og að vísindamenn benda ekki á það neins staðar í veröldinni að það sé mögulegt --- og sé ég nú að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir eitthvað. En miðað við stöðuna í Evrópu á íslensk náttúra og íslenskur landbúnaður ný og glæsileg sóknarfæri því að við eigum landið, við eigum kjötið sem við getum boðið á þá markaði og hafið sókn í byggð og í landinu sjálfu. Það eru því ný og glæst tækifæri sem íslenskir bændur eiga vissulega að nýta sér. Við eigum hér blendingsgripi af Aberdeen Angus, Limousin og Galloway og íslenska gamla nautakjötið sem við getum nú með nýjum hætti sent á markaði í Evrópu.

Ég hef sagt á fundi að nú eigi íslenskir bændur að stofna með sér félag og selja í gegnum internetið á heimasíðum íslenskt kjöt og auglýsa hina hreinu íslensku náttúru og þá hörðu kröfugerð sem hér er uppi um að vernda sérstöðu íslenska landbúnaðarins. Við eigum því tækifæri, hv. þm., en eigum ekki að reyna að vefja þessari umræðu upp í flókið mál. Hér fer fram lítil tilraun í tveimur fjósum. Íslenska kýrin fær sinn stóra sjens í þessari baráttu því í hana verða lagðar 35 millj. kr. í ræktunarátak og ég held að Búkolla sé tiltölulega glöð yfir þessu öllu saman.