Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:35:11 (2203)

2000-11-27 15:35:11# 126. lþ. 32.1 fundur 141#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:35]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er ástæðan fyrir því að ég kem aftur með þessa fyrirspurn sú að fyrir örfáum dögum töldu menn í Evrópu, á Spáni, í Þýskalandi og á fleiri stöðum, að þar væri ekkert smit á ferðinni. Hvað vitum við um Noreg? Hvað geta menn fullyrt um að það sé ekki í Noregi? Þetta er mjög dulin sýking og erfitt að standa á þeirri fullyrðingu að þetta smit sé ekki til staðar þar sem skepnur geta farið á milli.

Ég ætla að vona að draumar ráðherra um hina hreinu Búkollu fái staðist og að það verði með þeim hætti að tilraunin verði blásin af og að bændur geti áfram ræktað upp hina hreinu Búkollu til útflutnings inn á þá markaði sem núna eru að hrynja og ná upp eiginleikum íslensku kýrinnar með kynbótum og ná upp meiri mjólkurframleiðslu, meiri eiginleikum mjólkurinnar og betri spenagerð eins og bændur vilja leita eftir en án þess að farið sé út í þessa tilraun.