Innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:38:31 (2206)

2000-11-27 15:38:31# 126. lþ. 32.1 fundur 141#B innflutningur á fósturvísum úr norskum kúm# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um að ef vinstri grænir réðu þá væri of seint að lifa. Hér eru menn í heilum stjórnmálaflokkum iðulega að fiska í gruggugu vatni, skapa tortryggni til þess kannski að reyna að skapa sér fylgi.

Það liggur fyrir meðal færustu vísindamanna --- vísindamaður er öðruvísi gerður en stjórnmálamaður, guði sé lof, hann er aldrei jafnfullyrðingasamur, hann á alltaf efann í hjarta sínu sem er svo dýrmætur --- en vísindamennirnir segja um fósturvísaflutning og jafntakmarkaðan og hér á að eiga sér stað að hvergi sé að finna tilfelli þar sem slíkt hefur valdið slysi.

Auðvitað verður mjög grannt fylgst með öllum aðstæðum í Noregi og staðið þannig að þessari tilraun að færustu vísindamenn okkar haldi þar utan um hvern lið. Ef eitthvað gerist í Noregi og eitthvað mistekt í tilrauninni, þá verður hún stöðvuð.

En ég trúi því að nú verði friður í átta til tíu ár í íslenskri nautgriparækt sem skili henni fram á veginn. Ég bið vinstri græna um að standa að þeim friði með íslenskum bændum sem eiga á mörgum öðrum sviðum í vök að verjast.