Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:28:39 (2216)

2000-11-27 16:28:39# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:28]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er hægt að leika sér með prósentur á ýmsan hátt. Hins vegar passaði hv. þm. sig á því að tala ætíð um mismun og það er alveg hárrétt hjá hv. þm. að mismunur á 3% og 4% er 1%. En hlutfallslegur munur þessara talna er 33,3% og um það verður ekki deilt og hefur það verið kennt í skólum landsins, hv. þm., til fjölda ára og vona ég að ég þurfi ekki að taka hv. þm. í örlitla kennslu í prósentureikningi en af því hef ég talsverða reynslu.

Herra forseti. Það er athyglisvert að heyra það hjá hv. þm. að hann deilir því með 1. minni hluta fjárln. að hafa áhyggjur af ýmsum þáttum í þessu frv. til fjáraukalaga. Það kemur okkur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þetta höfum við heyrt hjá hv. þm. í störfum fjárln. og ég tek undir með hv. þm. að auðvitað er eðlilegt að þeir aðilar sem hafa farið örlítið á skjön við fjárlögin taki það alvarlega til athugunar.