Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 16:31:46 (2218)

2000-11-27 16:31:46# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[16:31]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Það er líklega rétt að gera prósentureikninginn upp við annað tækifæri en héðan úr ræðustóli. En það er auðvitað rétt hjá hv. þm. að áhyggjurnar eru miklar yfir því að ekki er farið eftir fjárlögunum sem eru auðvitað hluti af þeim lögum sem við setjum hér og við ætlumst til þess að eftir sé farið. Þó verður að segjast að það er ekki mjög traustvekjandi að koma hér ár eftir ár tilheyrandi þeim meiri hluta sem með völdin fer og ábyrgðina hefur og tala ætíð um að eingöngu séu áhyggjur af málunum. Það hlýtur að vera tími til kominn að þessar áhyggjur breytist í eitthvað annað og það verði sýnt í verki að áhyggjurnar eru raunverulegar.

Herra forseti. Við í minni hlutanum bíðum að sjálfsögðu eftir því að einhverjir hv. þm. í meiri hlutanum komi fram með tillögur sem sýni að þessar áhyggjur eru meira en orðin tóm og þá mun ekki standa á okkur í 1. minni hluta að standa við bakið á hv. þingmanni.