Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 17:08:23 (2228)

2000-11-27 17:08:23# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég hef við þær umræður sem hafa farið fram um bæði fjárlög og fjáraukalög gert athugasemd við að aðeins hæstv. fjmrh. væri viðstaddur til að ræða fjárlög, en nú er svo komið að hægt er að eiga orðastað við aðra hæstv. ráðherra og ætla ég að biðja um að séð verði til þess að á einhverjum tíma við 2. umr. um fjárlög verði hægt að nálgast ráðherrana til að ræða fjárlagatillögur, útgjaldatilefni og það sem felst í fjárlögunum og það sem menn telja sig sjá fyrir að sé rangt áætlað. Ég bið hæstv. forseta um að rita þetta niður hjá sér vegna þess að þau skilaboð sem ég bað fyrir í 1. umr. um fjáraukalög virðast ekki hafa borist til ráðherra eða þá að þeir forakta þá beiðni.

Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um hvernig hægt er að fá menn til að fara að fjárreiðulögum þá held ég að við höfum fleiri ráð en berar hendurnar eins og hv. varaformaður fjárln. nefndi. Hv. þm. sagði: Fjárln. hefur engin ráð, við erum berhentir. Það er ekki rétt. Við getum nefnilega, herra forseti, kallað hæstv. ráðherra í þingsal og beðið þá að standa skil á hverju einstöku atriði sem að þeim snýr. Við eigum erfitt með að kalla til æðsta mann þjóðarinnar. Það getum við illa gert, en við getum komið þeim skilaboðum á framfæri sem nauðsynleg eru þangað og það er meira en að vera berhentur. Það gerist þá með ansi miklum átökum ef svo langt er gengið.

Verið getur, herra forseti, að ástæða sé til að fara að reyna að fylgja því eftir sem við margir þingmenn svo sannarlega höfum sýnt vilja til að gera. Ég minni á, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. viðurkenndi í 1. umr. um fjárlög og um fjáraukalög að ýmsir liðir fjáraukalaga ættu heima í fjárlögum. (JónK: Nei. Það væri álitamál.) Eins og ég les málið og skil það í ræðu hæstv. fjmrh., þá skildi ég þetta þannig að ýmsir liðir ættu heima í fjárlögum sem stæðu í fjáraukalögum. En í þessari umræðu er ekkert dregið til baka heldur er bætt í ekki neinni smáupphæð, liðlega 2 milljörðum kr. Mér er kunnugt um að tillögur fram að 3. umr. um fjáraukalög eiga eftir að hækka. Ég reikna með að þegar búið er að bæta við heilbrigðispakkanum, sem gerð var grein fyrir áðan að hafi verið látinn bíða til 3. umr., þá verði um 1,5 og jafnvel 2 milljarðar komnir til viðbótar bara vegna heilbrigðismálanna sem þurfi að skoða.

Herra forseti. Ljóst er að þetta fjáraukalagafrv. er líkt þeim fyrri. Auðvitað er margt áhugavert sem blasir við, en kannski má segja að það sem ekki sést sé áhugaverðara. Eins og ég gat um áðan bíða heilbrigðismálin 3. umr. Þó liggjum við með skýrslu hjá okkur frá Ríkisendurskoðun sem birtist núna í nóvember þar sem gerð er grein fyrir að um 1,5 milljarða vanti til viðbótar í fjáraukalögin til að þær stofnanir geti rekið sig á þeim grunni sem þær telja sig verða að vinna á.

Það er kannski rétt að minna á það einu sinni enn, með leyfi forseta, að í nefndaráliti meiri hlutans um fjáraukalögin 1999 kom eftirfarandi fram:

,,Gerð verður krafa um að upplýsingar um rekstur stofnana miðað við fjárheimildir liggi fyrir mánaðarlega og að nauðsynlegt talnaefni úr launabókhaldi berist reglulega.``

Herra forseti. Ég minni á að þetta er úr áliti meiri hluta fjárln. í umræðu um fjáraukalögin 1999. Ekki hefur mikið gengið eftir af þeim áformum. Það sem verið er að gera með fjáraukalögunum er að í ýmsum tilvikum er verið að bæta upp uppsafnaðan halla. Eru fjáraukalögin til þess að bæta upp uppsafnaðan halla fyrri ára?

[17:15]

Þegar verið er að afgreiða fjárlög er nauðsynlegt að fyrir liggi áætluð fjárhagsstaða stofnana. Ég vil segja að nánast arfavitlaust sé að samþykkja fjárveitingu til stofnunar sem miðar við rekstur næsta árs án þess að taka tillit til stöðu hennar um áramót og sú umræða sem hér hefur farið fram nú þegar um fjáraukalög hefur sýnt að svo hefur ekki verið. Það þarf nefnilega að taka á slíkum vandamálum strax og það gerum við að sjálfsögðu. Þess vegna þurfum við fjáraukalög. En til þess að þau gangi eftir þarf þegar útgjaldatilefni liggur fyrir að sækja til fjárln. eða kynna a.m.k. málið fyrir fjárln. eins og fjárreiðulögin gera ráð fyrir og þá er formleg afgreiðsla rétt unnin. Þetta veit ég að hæstv. fjmrh. er alveg klár á, enda féllu orð hans við 1. umr. um fjáraukalög fyrir árið 2000 einmitt á þennan veg.

Búið er að ræða um stofnkostnað og rætt var um þessa stofnun, hv. Alþingi. Rætt var um æðsta embætti þjóðarinnar. Ég ætla ekki að ítreka þá umræðu. Þau gögn liggja fyrir í álitum frá fjárln. en ástæða er til að skoða þessi mál mjög vel þegar æðstu stofnanir þjóðarinnar fara ekki eftir því sem ætlast er til. Ég segi að til séu ráð til að lagfæra þessa hluti.

Farið hefur verið yfir 33 gr. fjárreiðulaga þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Fjármálaráðherra er skylt að gera fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir slíkum ófyrirséðum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og leita heimilda til þeirra með frumvarpi til fjáraukalaga.``

Ég skil þetta þannig að um leið og útgjaldatilefni liggur fyrir þurfi að senda inn beiðni og fá umfjöllun. Það er málið. Ég get rakið fjölmörg dæmi þar sem ekki hefur verið farið eftir þessu, þar sem forstöðumenn ýmissa stofnana hafa í rauninni ekki gert grein fyrir framúrkeyrslu fyrr en útgjöldin hafa verið framkvæmd. Þetta er það sem er að. Og ég veit, virðulegur forseti, að hæstv. fjmrh. deilir fullkomlega áhyggjum með okkur í fjárln. því að þar er samstaða um þessi mál. Ágreiningur getur verið um einstakar framkvæmdir en það er ekki ágreiningur um hvernig á að vinna eftir fjárreiðulögunum sem eru mjög gott tæki til að mynda aðhald að efnahagskerfinu.

Ég sé ástæðu til, herra forseti, að velta pínulítið fyrir mér fjárlagagerðinni og fjárlögunum. Ég tel að fjárlög samkvæmt stjórnarskrá hafi mjög sterka stöðu og sett fjárlög eiga að gilda. Helstu gallarnir við fjárlagagerðina eru þeir, eins og ég hef verið að ræða um, að fjárreiðulögin eru ekki virt. Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, að aðrir hæstv. ráðherrar ættu að vera viðstaddir og hlusta á vangaveltur þingmanna um hvernig má lagfæra þessa hluti. Ég treysti því að hæstv. fjmrh. komi því til skila að þeir sem hafa rætt um fjáraukalögin hafi lagt mesta áherslu á þetta í dag. Það liggur við að manni finnist að fyrirséð útgjaldatilefni séu oft og nánast sett inn að geðþótta.

Ég segi og ítreka að fjárlagafrv. er mjög góður grundvöllur fyrir umfjöllun um ríkisfjármál eins og við erum að vinna þau. En hugsanlega næðum við markmiðunum betur með því að breyta umfjöllun um fjárlög og hugsanlega ætti að fara að ráðum nágranna okkar um að setja fjárlög fram á öðrum tíma en gert er, eins og gert er t.d. í Svíþjóð, og þegar búið er að fara yfir ramma og fagnefndir hafa farið yfir þá ramma sem liggja fyrir er engu hnikað til og mikið þarf til að því verði breytt. Ég tel að eðlilegt væri að fjárlög yrðu afgreidd á fyrsta mánuði haustþings. Menn skulu bara velta því fyrir sér: Hvernig yrði framkvæmdin þá, hvernig yrði fjárlögum framfylgt? Þetta eru vangaveltur sem ég get ekki látið hjá líða, virðulegur forseti, að setja fram.

Ég er á því að fagnefndir eigi að koma að afgreiðslu fjárlagafrv. með því að fjalla hver um sinn þátt og síðan á þetta eðlilega að afgreiðast af hv. fjárln.

Ég vil minnast á einn þátt enn varðandi fjárlagagerð. Hér eru gerðar úttektir af hálfu Ríkisendurskoðunar, úttektir á ýmsum stofnunum og ég tel að allar þær skýrslur sem lúta að fjárlögum, sem þær gera flestar, eigi að taka og fara yfir af ákveðinni nefnd eða þá að leggja þær skyldur á herðar einhvers hóps innan fjárln. að fara yfir þær og skoða til að fjárlögin nái árangri miðað við það sem út af hefur borið eins og þær skýrslur gera flestar grein fyrir. Margar þessar skýrslur eru á þann veg að ýmislegt þarf að lagfæra sem eðlilegt er og staðreyndin er sú að meðferð fjármuna hefur batnað með því aðhaldi sem hefur verið beitt.

Ég vil nefna eitt, virðulegi forseti, sem ég hef oft nefnt áður. Það er þegar ráðuneyti eða stofnun hefur fengið heimild til að ráðstafa fjármunum og gerir það síðan ekki ár eftir ár en fær að endurnýja heimildina og sitja uppi með hana. Ég tel að það eigi að afnema. Það á að veita heimild þegar útgjaldatilefnið er ljóst. Ef heimildin er ekki nýtt árinu á að taka hana af og viðkomandi stofnun eða ráðuneyti á að leggja inn nýja beiðni og gera grein fyrir því hvers vegna fjármunum var ekki ráðstafað eins og virtist þó vera tilefni til við síðustu fjárlagaafgreiðslu.

Um eftirlitsskyldu nefndanna hef ég það að segja að það er fyrst og fremst fjárln. sem hefur mjög ríka eftirlitsskyldu með framkvæmd fjárlaganna en einnig væri hægt að gera ráðuneytunum skylt að skila til fjárln. stöðunni í ráðstöfun fjármuna nokkrum sinnum á ári. Þetta er hægt á þriggja mánaða fresti og kerfin sem við vinnum eftir eiga að vera það einföld og skýr að það á að vera hægt að skrifa út stöðuna frá hverju ráðuneyti fyrir sig með kannski viku fyrirvara eða svo eftir beiðni.

Það má líka velta því fyrir sér hvernig tilefnin skapast til að breyta fjárlögum ef þarf að breyta þeim. Það gerist þannig að þeir sem telja sig vanta fjármuni eða telja á sig hallað að einhverju leyti rökstyðja erindi til ráðuneyta og fjárln., og það sem gerist yfirleitt í slíkum tilvikum er að breyting verður á fjárlögum eða fjáraukalögum, eftir atvikum, til hækkunar. Það er mjög lítið um að breyting verði til lækkunar en það ætti þó að verða þegar um er að ræða ónotaðar fjárheimildir. Þá kæmi lækkun. Þetta væri hægt. Það er þó þannig að þingflokkarnir hafa að mínu mati mjög takmarkaðan tíma til að fylgjast með því sem er að gerast. Það er meira að segja svo að ég held að stjórnarflokkarnir hafi mjög takmarkaða yfirsýn yfir það sem er að gerast nema eftir því sem ráðherrar þeirra gera grein fyrir.

Mín skoðun er sú varðandi fjárlagagerð að miða þurfi við það sem nú er, og ég þekki ekki annað betra en rammafjárlagagerðina og snýst þá um að byggja upp grunninn það öruggan að menn geti brugðist við efnahagssveiflum, efnahagsaðgerðum með sem skemmstum fyrirvara. Ég er því hlynntur að notaðar séu reikniformúlur til að reyna að koma skikki á þær einingar sem menn eru að fjalla um í hverju tilviki en menn verða auðvitað að athuga að aðstæður eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða landsbyggðina eða Reykjavík.

Ég vil, herra forseti, í lokin á umfjöllun minni um fjárlög, fjáraukalög og hvernig áætlanagerð á að vera, vísa til þess að í nágrannalöndum okkar, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Bretlandi, er mjög strangt aðhald í fjárlagagerð og við höfum tekið upp marga góða hluti frá þeim þjóðum. Oft er talað um að við Íslendingar séum fiskimannaþjóðfélag þar sem miklar og örar sveiflur eru. Við þurfum að koma í veg fyrir þær sveiflur sem við búum við og það efnahagsástand sem hefur verið undanfarin ár. Það er ekki stöðugt, sennilega erum við efst á kúrfunni og ýmislegt sem bendir til þess að við séum að fara eitthvað af stað niður á við. Það er ekkert óeðlilegt. Við sitjum ekki alltaf á toppnum á bylgjunni.

Herra forseti. Ég ætla að ljúka umfjöllun minni núna með því að ræða aðeins um þau mál sem ekki eiga að vera til umræðu hér, þ.e. heilbrigðismálin. Þar liggur fyrir, virðulegur forseti, að við þurfum að gera einhverjar aðgerðir sem skipta máli. Ég tel að þau vinnubrögð gangi ekki sem nú eru með þeim ferliverkum sem í gangi eru á sjúkrahúsunum. Í rauninni má segja á einfaldan máta að ákveðnir aðilar sem hafa aðstöðu til ,,taka`` bestu ferliverkin út af sjúkrahúsunum og fara með þau á einkastofu út í bæ og skilja erfiðustu tilvikin eftir á sjúkrahúsunum. Þetta þýðir kostnaðarauka hjá sjúkrahúsunum og kostnaðarauka hjá Tryggingastofnun. Þarna eru mál sem við verðum að gera svo vel að taka á hvernig sem við förum að því. Ég held, virðulegur forseti, að fjárln. Alþingis sé berhentari í þessum málaflokki og með miklu lakari vopn í höndunum en gagnvart því sem ég var að ræða um varðandi ráðuneytin og ýmsar stofnanir.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra. En það eru örfáar staðtölur sem kannski væri ástæða til að nefna. Við höfum verið mjög ánægð með hvernig við erum stödd og höfum talað um að Ísland sé mjög framarlega. Ég bendi á að ef við skoðum útgjöld til félags- og heilbrigðismála í löndum Evrópska efnahagssvæðisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, þá er Ísland í 16. sæti af 17 sem miðað er við í þeim töflum sem ég er með og er út frá flokkunarkerfi sem heitir NOSOSCO. Það er ótrúlegt en satt að Ísland er í 13. sæti fyrir framan Írland, Spán, Grikkland og Portúgal í útgjöldum til félags- og heilbrigðismála í löndum Evrópska efnahagssvæðisins.

Ef við skoðum útgjöld til félags- og heilbrigðismála einungis á Norðurlöndunum, þá er Ísland í neðsta og 5. sæti miðað við Danmörku, Finnland, Noreg og Svíþjóð. Ef við skoðum útgjöld á íbúa til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum, þá er Ísland líka í neðsta sæti. Ef við skoðum útgjöld til fjölskyldna barna á Norðurlöndum, þá er Ísland enn í neðsta sæti.

Virðulegi forseti. Í þeim gögnum sem ég er að fletta núna liggja fyrir mjög forvitnilegar staðreyndir. Ég hygg að þær gangi mjög á skjön við það sem hæstv. ríkisstjórn Íslands hefur haldið fram. Hér eru staðreyndir sem mönnum er nauðsynlegt að kynna sér og við þurfum að bæta stöðu okkar ekki síst hvað varðar öryrkja og aldraða. Þar erum við langverst sett af Norðurlöndunum og við erum neðar en mörg af þeim löndum sem við erum með til viðmiðunar. Það er alvarlegur hlutur og að þeim þætti mun ég koma í umræðu um fjárlög. Þar mun ég tína til nákvæmlega hvernig staða okkar er í þeim málaflokki þar sem ríkisstjórnin hefur verið svo rausnarleg að raunhækkunin til þeirra aðila er 157 kr. í apríl.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið með þessum orðum.