Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 17:57:12 (2232)

2000-11-27 17:57:12# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[17:57]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta. Eins og fram kom eru þessi hátíðahöld að baki og því er hægt að verja svona fjárhæðum til annarra verkefna.

Vissulega tengist margt fleira þessum hátíðahöldum. Menn hafa víða byggt upp í tengslum við þetta, t.d. var myndarlegt framtak vestur í Dölum sem á áreiðanlega eftir að skila sér í aukinni ferðaþjónustu þar. Þannig mætti víðar telja. Ég endurtek að landkynningin, sérstaklega vestan hafs, virðist hafa skilað sér mjög vel og heimssýningin einnig. Eins og ég sagði áðan þá tókst hún mjög vel af okkar hálfu. Ég vil láta það koma sérstaklega fram að þó aðsókn hafi verið lítil að heimssýningunni og mun minni en áætlað var þá var aðsókn að íslenska skálanum langt fram yfir það sem búist var við. (Gripið fram í: Hún var hlutfallslega góð.) Hún var meira en hlutfallslega góð. Það sóttu 4 millj. manna heim íslenska skálann. Til samanburðar sóttu 800 þúsund manns heim norska skálann. Það er ekki á hverjum degi sem við náum með okkar kynningu til 4 millj. manna. Ég fór ekki vestur um haf í eigin persónu eins og margir gerðu en mér er sagt að átakið þar hafi tekist mjög vel, að þar hafi verið mikil fjölmiðlaumfjöllun. Vonandi skilar það sér í ferðamennsku og ímynd landsins.