Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:05:09 (2236)

2000-11-27 18:05:09# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:05]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum örugglega ekki ósammála um að slík nýsköpun sem hann var hér að nefna sé vísir að því sem gæti tekið við í framtíðinni.

Það eru auðvitað mörg fleiri störf. Ég var t.d. á föstudaginn að kynna mér starfsemi álversins uppi á Grundartanga. Það sýnir sig að samfara álverinu var mikil uppbygging á Vesturlandi og fjölgun starfa. En mér er líka spurn: Er það virkilega svo að þegar verið er að byggja álver sé bara hægt að flytja raforkuna í eina átt, bara að sunnan? Er ekki hægt að flytja hana að norðan? Er ekki hægt að reisa orkuver á Vestfjörðum og flytja orkuna suður ef vantar orku?

Mér virðist vanta dálítið mikið það sem við köllum að vera með jákvæða hugsun í byggðamálum. Það er eins og hugsunin sé á annan endann, allt komi að sunnan. Þess vegna hef ég ævinlega í ræðum mínum, þegar ég er að ræða um þessa pólitík, vikið af því hvernig byggðamálunum er komið. Ég held að sú vísa verði aldrei of oft kveðin og menn verða að átta sig á því að langflest sjávarútvegsþorp á Íslandi hafa orðið til vegna nálægra fiskimiða. Það er, svo að ég endurtaki það, algerlega vitlaus stefna að rífa fyrst festuna undan byggðinni og ætla svo að vera í tíu ár að laga ástandið sem skapast.