Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:06:56 (2237)

2000-11-27 18:06:56# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ríkisendurskoðun skoðar rekstur stofnana ríkisins annarra en Alþingis. Hún gerir endurskoðunarskýrslur, hún gerir stjórnsýsluathuganir á þessum fyrirtækjum, athugar ákvarðanir stjórnar og annað slíkt en að sjálfsögðu gerir hún þetta ekki hjá Alþingi þar sem hún heyrir undir Alþingi, undir forsn. Þess vegna eru fjárveitingar Alþingis sérstaklega viðkvæmt mál sem alþingismenn þurfa að skoða mjög vel.

Í þeim fjáraukalögum sem við ræðum er einn liður sem sýnir mjög óöguð vinnubrögð. Það er liðurinn Fasteignir Alþingis sem er upp á 83 millj. Í fjárlögum var gert ráð fyrir 113 millj. kr. í þennan lið. Ég greiddi reyndar einn þingmanna atkvæði gegn þeim lið af því að ég sá ekki tilganginn með honum. Þetta er ekki fjárfesting, þetta eru innréttingar, en þessi liður hefur síðan þá, á einu ári, hækkað um 83 millj. Maður hlýtur að spyrja hæstv. forseta hverju veldur því að það er á valdsviði forsetanna að sjá um þennan rekstur. Þar með er innréttingakostnaður kominn upp í 196 millj. sem fer örugglega upp í 200 millj. Maður fer að spyrja sig: Hversu margir fá þarna inni? Hver er kostnaðurinn á mann og hver er leigutíminn?

Í atvinnulífinu eru innréttingar yfirleitt afskrifaðar á átta árum þannig að þetta eru um 25 millj. á ári í afskriftir af þessum innréttingum. Svo geri ég ráð fyrir að einhver leiga sé á húsnæðinu líka, herra forseti. Gaman væri að vita hvað þetta eru margir fermetrar líka og fjöldi skrifborða, hvað hver vinnuaðstaða kostar. Ég hef grun um að þetta slái út ævintýrið þegar ég flutti inn í skrifstofuna mína sem kostaði 7,5 millj., þ.e. eitt lítið herbergi var íbúðarverð á þeim tíma.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, herra forseti, að Alþingi beiti sjálft sig aga. Það getur ekki krafist aga af stofnunum þjóðfélagsins þegar það stendur sjálft í slíkum útgjöldum.

Herra forseti. Það er annað embætti sem er líka þess eðlis að eiginlega getur enginn um það fjallað sökum virðingar þess. Það er embætti forseta Íslands. Þar þarf að gæta sérstakrar aðgæslu í að fara að fjárlögum. Menn hljóta að vita hvað þeir þurfa áður en fjárlög eru sett. Ég held að Alþingi hafi ekki verið naumt í því að skammta embætti forseta Íslands fjárveitingar. Þess vegna er dálítið ankannalegt að sjá viðbót í fjáraukalögum. Það ætti eiginlega ekki að vera.

Svo ég tali rétt aðeins um samband fjárlaga og fjáraukalaga og vinnu fjárln. þá gerist það að fjárlög byggja á áætlunum, ákveðnum forsendum. Menn gefa sér ákveðnar forsendur um t.d. þróun launa, verðlags, gengis o.s.frv. Mikil vinna er lögð í það og þegar þessar forsendur liggja fyrir eru fjárlögin sett og þau ættu að standast nema eitthvað mjög mikið gerist. Þess vegna ættu fjáraukalög að vera afskaplega mögur ef fjárlagagerðin hefur verið vönduð og enn magrari ætti vinna fjárln. að vera sem er að vinna með 50 daga gamlar upplýsingar. Frá því að fjáraukalög eru lögð fram og þar til fjárln. skilar niðurstöðu líða kannski tæplega 50 dagar. Það ætti ekki mikið að gerast á þeim tíma þannig að á þeim tíma ættu menn ekki að taka á einhverjum stórum hlutum nema í æðstu stjórn ríkisins. Það væri ekki eðlilegt og væri mjög ankannalegt ef fjmrh. legði fram tillögur um breytingar á æðstu stjórn, þ.e. Alþingi og forseta Íslands, þannig að sú breyting hlýtur að koma frá fjárln.

Inn í þetta kemur líka að það er ekki bara breyting á forsendum. Það eru líka lagabreytingar sem Alþingi ákveður sem geta endurspeglast í fjáraukalögum. Ég tek því á margan hátt undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni þar sem hann gat um þann aga sem þarf að fylgja í fjárlögum að eiginlega á ekkert að breyta fjárlögum nema breyting verði á forsendum fjárlaga. Þær ættu menn að vita nokkurn veginn þegar fjáraukalög eru lögð fram þannig að það ætti eiginlega ekkert að breytast nema Alþingi setji lög eða þá eitthvað stórkostlegt gerist í þjóðfélaginu, eldgos eða eitthvað því um líkt, svo að maður tali ekki um að frá því að fjáraukalög eru lögð fram, sem ég er alveg sammála að gæti verið mörgum sinnum á ári og ætti kannski að vera oftar.

Samt sem áður breyttust nokkrir liðir frá því að fjáraukalögin voru lögð fram, sem sagt á 50 dögum. Fyrir utan þá liði sem ég gat um áðan er t.d. Þjóðleikhúsið. Þar er gert ráð fyrir 66 millj. aukafjárveitingu til þess að Þjóðleikhúsið geti gert upp skuld sína við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna hlutdeildar í lífeyrishækkunum fyrrverandi starfsmanna. Þetta eru 66 millj., herra forseti. Það er ekki lítil tala. Í fjárlagafrv. árið 2001 er lagt til að leikhúsið verði gert að A-stofnun. Fyrr verður það ekki A-stofnun. Það er mjög eðlilegt að þessi tala væri í fjárlögum fyrir árið 2001 því að þá kemur þessi óvænti atburður upp. Engin ástæða er til þess að hafa þetta í fjáraukalögum. Þetta ætti að vera í fjárlögum og koma til greiðslu 1. janúar um leið og lögin taka gildi, fjárlagafrv. fyrir árið 2001. Um leið og þau fjárlög taka gildi er leikhúsið orðið að A-hluta stofnun og þá fellur þessi skuldbinding til.

Síðan er það landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Þar er lagt til að veitt verði 20 millj. kr. fjárveiting til að koma til móts við uppsafnaðan rekstrarhalla skólans í trausti þess að áfram verði unnið að varanlegri lausn á fjárhagsvanda stofnunarinnar. Hvað er eiginlega að gerast þarna? Á 50 dögum hafa menn komist að því að þarna er eitthvað mikið að gerast sem lá ekki fyrir þegar fjáraukalagafrv. var lagt fram. Það er sem sagt mikið að gerast og nú spyr maður: Hver ber ábyrgð? Samkvæmt fjárreiðufrv. var sett inn ábyrgð forstöðumanna á því að þeir standist fjárlög. Ég held að mjög nauðsynlegt sé að það sé ítrekað að fjárlög eru lög í þessu landi og mönnum ber að fara eftir þeim, líka forstöðumönnum stofnana og kannski sérstaklega þeim.

[18:15]

Hér er svo, herra forseti, talað um 57,2 millj. fjárveitingu til greiðslu skuldar við Tryggingastofnun ríkisins vegna lögbundinnar skyldu félmrh. til að greiða meðlög, sbr. 25. gr. barnalaga, nr. 20/1992. Þetta eru ekki sérstaklega ung lög. Það ætti að vera komin reynsla á hvernig þau virka. Hins vegar vantar allt í einu 57 millj. á 50 dögum, herra forseti. Það eru mörg börn á stuttum tíma. Þetta er eitthvert sleifarlag, herra forseti. Þetta er agaleysi og kannski léleg áætlunargerð, kastað til höndum við hana væntanlega. Þá kemur aftur að þessu ákvæði í fjárreiðufrv. sem þarf að fara að beita til að halda uppi ákveðnum aga.

Þá kem ég að heilbrigðiskerfinu. Ég ætla bara ekki að tala um það. Fyrir ári voru krosslagðir fingur og ég veit ekki hvað, og talið að nú væri búið að gera upp við alla, allt væri ljómandi gott og allar skuldir gerðar upp. Þar var allt sett á núll þannig að ég býst ekki við einni einustu krónu í það núna, herra forseti. Ég ætla ekki að tala um það einu sinni.

Svo er það Vegagerðin. Þar ætla menn að vera góðir við verktakana sem þurfa að sæta 70% hækkun á dísilolíu. Það er svo sem ágætt. Það er enginn akkur fyrir Vegagerðina að setja menn í fjárhagsleg vandræði. En maður spyr: Hvað mundi gerast ef olían lækkaði? Fengi þá Vegagerðin endurgreiðslur frá þessum verktökum? Eru þeir líka svo góðir í viðskiptum að þeir mundu lækka verðið sem um var samið?

Þá kem ég að Löggildingarstofunni. Þar virðast 20,3 millj. hafa dottið inn á síðustu 50 dögum vegna stofnbúnaðar og innréttinga í nýju húsnæði auk þess að kostnaður af sameign hefur reynst meiri en ætlað var. Þetta gerist allt á 50 dögum, frá því að fjáraukalagafrv. er lagt fram og ég tala nú ekki um frá því að fjárlögin voru lögð fram. Auðvitað eiga menn að vita að fjárlög liggja fyrir og fara eftir þeim. Ég geri ekki ráð fyrir að stofnbúnaðurinn sé svo óvæntur útgjaldaliður, væntanlega þarf að panta hann. Hann er ekki svo óvæntur og hefði alla vega átt að vera í fjáraukalögunum en ekki í athugasemdum nefndarinnar.

Hagstofunni á að veita 35 millj. af sömu sökum, til að mæta ófyrirséðum kostnaðarauka. Þeir vissu ekki neitt fyrr en núna á síðustu 50 dögum að eitthvað stórt var að gerast upp á 35 millj. Maður getur varla tekið það alvarlega og síst af öllu frá Hagstofunni sem ætti að kunna að gera áætlanir.

Hjá veiðistjóra er uppsafnaður vandi. (Gripið fram í: Hundabú.) Hundabú, já. Við erum sem sagt að fjalla um hundabú og endurgreiðslu á refaveiðum. Þetta virðist bara hafa dottið inn á síðustu stundu eftir að fjáraukalög voru lögð fram.

Herra forseti. Mér finnst að hv. fjárln. eigi ekki að hlusta á svona. Hún á að segja: Það eru fjárlög í gildi og búið að leggja fram fjáraukalög og ef eitthvað stórt hefur gerst frá því að fjáraukalög voru lögð fram tökum við tillit til þess. Verði jarðskjálfti, eldgos eða eitthvað slíkt þá tökum við tillit til þess.

Varðandi liðinn Æðsta stjórn ríkisins þá fellst ég á, herra forseti, að það er ekki mál framkvæmdarvaldsins, þ.e. rekstur forsetaembættis og Alþingis. Þar finnst mér eðlilegt að fjárln. komi með breytingar á fjárlögum en ekki framkvæmdarvaldið. Þetta leiðir eiginlega hugann að því hvort ekki væri eðlilegt að Alþingi setti sér eigin fjárlög og væri ekki að blanda hæstv. fjmrh. í þau. Hann er hluti af framkvæmdarvaldinu og á ekki að setja okkur reglur um útgjöld.