Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:21:42 (2239)

2000-11-27 18:21:42# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til þess að lýsa því yfir að ég er eiginlega sammála öllu því sem hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér áðan. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. geri sér ekki grein fyrir því hvernig framkvæmdarvaldið leikur sér að því að fela óþægileg útgjöld með því að setja hluta þeirra inn á fjáraukalög og síðan annan hluta inn á brtt. við fjáraukalög. Með þessum hætti er komið í veg fyrir að stórir kúfar sem ella sæjust í fjárlögum veki athygli. Út á þetta gengur leikurinn. Þetta reyndum við að koma í veg fyrir þegar við settum fjárreiðulögin 1996. Það er þetta sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson rökstuddi svo vel í framsögu sinni fyrr í dag að við þyrftum að breyta. Ég er sammála því, herra forseti, og segi reyndar að með orðum sínum er hv. þm. Pétur H. Blöndal að taka þéttingsfast undir með stjórnarandstöðunni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal gagnrýndi einnig með hvaða hætti fjárveitingar fara í gegnum fjáraukalög og brtt. við fjáraukalög til embætta eins og forsetaembættisins og Alþingis. Ég tek líka undir með hv. þm. í þessu efni. Sérstaklega er ég sammála honum um að Alþingi hlýtur að þurfa að taka sér tak. Það er ekki trúverðugt ef Alþingi fer langt fram úr fjárheimildum sem það hefur sjálft sett sér. Eftir höfðinu dansa limirnir, herra forseti, og Alþingi hlýtur að þurfa að fara eftir þessum lögum fremur en aðrir.

Aðrar stofnanir væri líka rétt að nefna hér. Það er t.d. ótrúlegt að sjá að eitt af gæluverkefnum framkvæmdarvaldsins, þ.e. Safnahúsið við Hverfisgötu þar sem menn halda fyrirmönnum góðar veislur, bæði sjálfum sér og öðrum, fer fram úr fjárlögum meira en 100%. Heildarkostnaður ársins átti að verða 95 millj. kr. en gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar muni kosta 100 millj. kr. meira, þ.e. alls 195 millj.