Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:51:52 (2242)

2000-11-27 18:51:52# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Af því að ég veit að hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., er haukfránn að sjón þarf hann ekki annað en skima hér út í salinn til að sjá ekki bara eitt ábyrgt andlit Samfylkingarinnar heldur tvö önnur. Ég man reyndar ekki betur en að hv. þm. Jón Bjarnason hafi líka varað við þessu þensluástandi sem síðan skall yfir þjóðina og eins og við fært ákveðin rök að því hvað mundi gerast ef ekki væri gripið í taumana.

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson getur séð það svart á hvítu að Samfylkingin og við fulltrúar hennar í fjárln. lögðum fram álit þar sem við hvöttum til þess að dregið yrði saman í útgjöldum ríkisins og menn mundu nota fyrri part kjörtímabilsins til þess. Hvers vegna? Vegna þess að við erum raunsæismenn. Ég er búinn að vera áratug í þessum ágætu sölum og ég veit samkvæmt sárri reynslu að ákaflega erfitt er að draga saman útgjöld ríkisins nema fyrri hluta kjörtímabils. Þess vegna átti ríkisstjórnin auðvitað að taka því tilboði sem við buðum fram á sínum tíma, gerðum það í þessum stól, gerðum það skriflega í álitum okkar við bæði fjáraukalögin og fjárlögin. En hv. þm. stjórnarliðsins höfðu ekki áhuga á því. Þeir töldu eins og stjórnarherrarnir, sem hérna standa í gættinni, að góðærið yrði nánast endalaust eins og hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. tönnluðust á mánuðum saman fyrir kosningarnar. Menn trúðu þessu, líka hér í þessum sal. Það var kannski ástæðan fyrir því að hv. þm. Jón Kristjánsson taldi ekki þörf á því að fara þá leið. En nú blasir það einfaldlega við að við erum lent í ákveðnu öngstræti og það er þessi slaki í ríkisfjármálunum sem að dómi sérfræðinga hefur leitt til peningamálastefnu sem er ákaflega óhagkvæm atvinnulífinu.