Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:58:13 (2245)

2000-11-27 18:58:13# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:58]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan tel ég rétt og skylt að fara aðeins yfir fjáraukalagafrv.

Herra forseti. Flestar tölurnar og meginuppistaðan í fjáraukalagafrv. eru eðlilegar niðurstöður. Þetta eru mjög eðlilegar tölur og ekkert við þær að athuga. 1.200 millj. kr. aukning á vöxtum á sér eðlilegar orsakir og þarf enginn að fara í grafgötur með það. Við höfum líka samþykkt á þinginu nýja vegáætlun sem kostar 500 millj. Eðlilegt er að samþykkt Alþingis komi inn í fjárlögin. Sama er að segja um hafnaáætlun, inn í samþykkt Alþingis koma 70 millj. Gerðar hafa verið tillögur um aukningu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, það eru 800 millj. Við getum haldið svona áfram. Fyrir lá að bæta þurfti til sjúkratrygginga um 900 millj. kr. Þetta eru allt samþykktir sem hafa verið gerðar á Alþingi og það er ekkert annað en að viðurkenna það. Við samþykktum ný lög um persónuvernd. Það er mjög eðlilegt að við gerum það. Mikil peningaaukning er til háskólans eða 90 millj. Það er samkvæmt því greiðslumódeli sem við borgum. Þetta er allt í samráði við það sem við höfum ætlað okkur að gera og er því eðlilegt.

[19:00]

Hins vegar, herra forseti, eru nokkur hundruð millj. í þessu frv. sem ég get alveg tekið undir og sagt um að eru óeðlilegar eða ég kann ekki svör við og lít á það og tek undir það með stjórnarandstöðunni að það hlýtur að flokkast undir annaðhvort lausung eða minna eftirlit en þarf að vera, þ.e. þessar nokkur hundruð millj.

Stærsti hlutinn af því er Alþingi, langstærsti hlutinn, eini sérliðurinn sem er Alþingi. Ég ætla að taka það fram vegna ummæla hv. þm. áðan að það á að vera alveg skýrt sem ég sagði um æðstu stjórnendur ríkisins. Það er engin uppgjöf af minni hálfu sem fjárlaganefndarmanns að reyna að tugta til þá sem undir ríkið heyra. Ég sagði um æðstu embættismenn ríkisins og æðstu embætti ríkisins að Alþingi Íslendinga, forsetar Alþingis, bæru ábyrgð á skrifstofu Alþingis. Á skrifstofu forseta Íslands ber enginn annar ábyrgð en þjóðhöfðinginn sjálfur. Fjárln. er vinnunefnd í þinginu. Hún hefur enga möguleika til þess að taka forseta lýðveldisins á beinið. (ÖS: Hvað með Safnahúsið?) Hún hefur ekkert vald til þess að taka forseta þingsins (Gripið fram í: Ráðherrann.) á beinið. Við getum bara beint því til æðstu stjórnenda að það sé vegna þjóðarinnar og þeirra sjálfra að það sé mjög æskilegt að slíkur vansi endurtaki sig ekki. Þetta getum við gert og við höfum ekki vald til annars og dettur ekki hug að halda að neinn hafi misskilið þetta á neinn hátt. Fjáraukalögin og þær tillögur sem hér liggja fyrir eiga sér því stoð að flestu leyti í samþykktum Alþingis og því sem hefur gerst hjá ríkisstjórn, og þær breytingar sem orðið hafa á árinu, samanber 100 millj. vegna aukinnar slysatíðni og slysa á spítölum o.s.frv. Það er því alveg ljóst um hvað við erum að fjalla hérna.

Hins vegar get ég ekki stillt mig um að segja það, úr því að formaður Samfylkingarinnar hefur orð á því, að umræður um efnahagsmálin tóku dálítið skrýtinn hnykk þegar efnahagsráðgjafi (ÖS: Ykkar?) Seðlabankans hætti störfum. Þá fór hann að gefa ráð, líklega kauplaust. (Gripið fram í.) Það er svo sem ágætt að menn gefi ráð í aukavinnu eða sjálfboðavinnu en við höfðum ekki haft gagn af þessum ráðum meðan hann var að störfum þannig að það er athugandi fyrir þá ráðgjafa sem vinna hjá ríkinu að koma ráðum sínum frá sér meðan þeir eru í vinnunni en ekki geyma það þangað til þeir hætta störfum.

Það hefur nefnilega verið deilt um það lengi á Íslandi, ein þrjú ár, hvort vaxtastefna Seðlabankans næði þeim árangri sem Seðlabankinn hefur ætlast til, hvort hún snerist ekki upp í andhverfu sína og yrði atvinnulífinu hinn þungi baggi. Um þetta hefur verið deilt mjög harkalega.

Það er eðlilegt að spurt sé núna þegar vaxtastefnan er enn þá uppi og krónan leitar að sjálfsögðu síns jafnvægis sem er hinn æskilegasti hlutur. En hvað var það, herra forseti, sem gerðist á síðustu tveim árum þegar við héldum uppi þessu vaxtastigi með þeim árangri að krónan stóð svona hátt? Það gerðist nákvæmlega bara eitt: Kaupmáttur launa á Íslandi varð hærri en viðmiðunin hafði verið í kjarasamningum, kaupmátturinn varð meiri. Hann er búinn að vera það núna á þriðja ár, þ.e. hærri kaupmáttur en gengið var út frá í kjarasamningum. Þetta er árangurinn af vaxtastefnunni. Nú gengur þetta allt til baka en ekki til hagsbóta fyrir alþýðu. Fyrir alþýðu manna hefur það alltaf legið fyrir og alla launþega að hin sígandi lukka borgar sig og er hið rétta, að menn geti treyst þeim kjarabótum sem þeir hafa og megi treysta því að þær gangi aldrei til baka. Það er aðalatriðið fyrir launþega.

Nú er hætt við því að þessi kjarabót sem var umfram það sem samið var um gangi til baka og það er af hinu vonda og það er mjög slæmt fyrir launþegann. Það er mjög slæmt fyrir hvern íbúa þessa lands. Vegna þeirra ummæla að hér hafi fyrst og fremst verið um vandræði í ríkisfjármálum að ræða, er ástæða til þess að benda á að svo er ekki því að í annan tíma hafa þó ríkisútgjöldin ekki verið í betra formi en á undanförnum þrem, fjórum árum. Það má vel segja að þau hefðu mátt vera betri. En þau hafa þó aldrei verið í jafngóðu standi og síðustu þrjú ár. Kaupmátturinn fór úr böndunum og það er athyglisvert að heyra þessar ábendingar núna og vonandi, eins og ég sagði áðan, að ráðgjafarnir gefi þá ráð meðan þeir eru í vinnu sem ráðgjafar, geymi það ekki þangað til þeir eru hættir.